Select Page

Val­garð Rein­harðs­son, ríkjandi Ís­lands­meistari í fim­leikum, hóf keppni fyrir Ís­lands hönd á heims­meistara­mótinu í Belgíu í dag. HM í fim­leikum hófst í dag en stiga­hæstu kepp­endur mótsins tryggja sér sæti á Ólympíu­leikunum í París á næsta ári.

Val­garð byrjaði mótið af krafti með æfingum á hringjum sem skiluðu honum 12,8 stigum. Hann fylgdi því eftir með öflugu stökki sem skilaði honum 14.033 stigum og síðan með æfingu á tví­slá sem skilaði 13,3 stigum.

Þegar þrjú á­höld af sex voru búin var ÓL draumurinn á lífi og allt stefndi í ó­trú­legan dag þegar smá­vægi­leg mis­tök á svifrá urðu Val­garði að falli er hann greip ekki flug­æfingu sína svifrá. Val­garð var með neglurnar á ránni en það dugði ekki til og svo fór sem fór.

Hann lauk mótinu hins vegar af sæmd með góðri gólfæfingu og flottum boga­hesti. Val­garð lauk keppni með 75,765 stigum og endar í 36. sæti á HM, eins og staðan er núna, enn eru þrír hlutar eftir.

Dagur ó­vænt inn á HM


Ís­lensku kepp­endurnir fengu ó­væntan liðs­stuðning á síðustu stundu í fyrra­dag þegar Dagur Kári Ólafs­son, einn efni­legasti fim­leika­maður landsins, komst inn á Heims­meistara­mótið eftir að hafa verið vara­maður í marga mánuði.

Dagur var ör­fáum stigum frá því að ná lág­mörkum HM þegar hann keppti á Evrópu­meistara­mótinu í apríl en endaði sem fyrsti vara­maður.

Dagur var fastur í þeirri bið­stöðu alveg þangað til í fyrra­dag er sím­talið kom. Dagur hefur æft síðustu vikur og mánuði líkt og hann væri að fara keppa og mætir því til­búinn til leiks á morgun en keppni hefst klukkan 8:00 að ís­lenskum tíma.

Ís­lensku lands­liðs­stelpurnar, Thelma Aðal­steins­dóttir og Margrét Lea Kristins­dóttir, keppa síðan fyrir Ís­lands hönd á mánu­daginn.

Fimleikasamband Íslands óskar Valgarði, þjálfurum og Gerplu innilega til hamingju með árangurinn á HM 2023.