Parkour
– Uppruni og hugmyndafræði
Hugmyndafræði parkour snýst um sjálfstyrkingu og sigur á hindrunum, jafnt líkamlegum sem andlegum. Íþróttin hentar öllum og á uppruna sinn að rekja til bæjarins Lisses í Frakklandi. Upphafsmenn íþróttarinnar er hópurinn Yamakasi; David Belle, Sébastien Foucan, Châu Belle Dinh, Williams Belle, Yann Hnautra, Laurent Piemontesi, Guylain N’Guba Boyeke, Malik Diouf, og Charles Perriére. Íþróttin hefur svo breitt úr sér og er nú stunduð um gervallan hnöttinn.
Íþróttin og hreyfingar
Parkour sem íþrótt snýst um að nota líkama sinn til að yfirstíga áskoranir og hindranir í umhverfi sínu. Hreyfingarnar sem eru notaðar til þess geta verið klifur yfir veggi, stökk, heljarstökk og spörk og aðrar listrænni hreyfingar. Hindranirnar geta verið veggir, holur, skurðir og bekkir; nær allt það sem býr í daglega umhverfinu. Auk þess þjálfar parkour þor, dugnað og ábyrgð iðkanda á sjálfum sér, þar sem margar þær áskoranir sem fram koma snúast um að sigrast á ótta og trú á eigin getu. Gróflega má skipta parkour í eftirfarandi hreyfingar: lendingar, handstökk, stökk, klifur og frjálsa hreyfingu. Yfirleitt eru þessar hreyfingar framkvæmdar í svokölluðum línum.
Lendingar
Lendingar eru mikilvægasti þáttur parkour. Hæfnin til að geta lent mjúklega og af yfirvegun í þeim tilgangi að dreifa þeim höggþunga sem verður til við síendurteknar lendingar á hörðu undirlagi er nauðsynleg. Parkour iðkendur á hæsta stigi æfa ávallt lendingartækni. Helstu lendingar eru breakfall eða parkour rúllan, fjögurra punkta lending og negling.
Handstökk
Handstökk eru hreyfingar sem iðkendur notast við til þess að komast yfir hindranir þar sem hendur styðja við, ýta í eða frá flötum, til þess að komast yfir. Dæmi um slíkar hindranir eru: handrið, veggir, borð og álíka. Algengustu handstökkin eru kong, dash, speed, step og lazy.
Klifur og stökk
Í parkour eru margvíslegar aðferðir notaðar til þess að komast yfir hærri hindranir og áskoranir ef handstökkin henta ekki. Þar er átt við hinar ýmsu gerðir stökka sem framkvæmd eru á einum eða tveimur fótum, auk gripstökka og klifurs. Algengustu aðferðirnar eru cat, climb-up, dyno og stride.
Frjáls hreyfing
Í parkour býðst iðkendum að læra alls kyns stökk og hreyfingar sem nýtast ekki beint í skilvirkri leið frá punkti A til B, en vísa frekar til listrænnar tjáningar iðkandans á umhverfi sínu. Þar eru hin ýmsu heljarstökk, spörk, sirkushreyfingar, sparkstökk og skrúfur fremst í flokki.
Línur
Parkour þjálfar hjá iðkendum svokallaða “parkour sjón” sem gengur út á það að sjá nýja möguleika í umhverfinu sínu og leiðir til að hreyfa sig um. Þessi færni gerir parkour iðkendum kleift að búa til línur af hreyfingum. Línur eru röð hreyfinga (flæði) sem iðkandi tengir saman með umhverfi sínu þar sem leitast er við að nota það á áhrifaríkan og frumlegan hátt. Tvær megin gerðir af línum eru til í parkour. Ein leiðin felur í sér að finna fljótustu og gagnlegustu leiðina yfir svæðið frá A til B, á meðan hin leiðin felur í sér að finna sér frumlegustu eða fallegustu línuna með ímyndunaraflið að leiðarljósi það sem iðkandinn framkvæmir sýna túlkun.
Samfélagið
Þar sem parkour er jaðaríþrótt sem stunduð er utanhúss er aðal æfingatímabil þess yfir vor og sumar. Iðkendur hittast þá á ákveðnum æfingastöðum sem bjóða upp á hagkvæmar og sniðugar áskoranir til að yfirstíga. Þessar samkomur haldast oft hönd í hönd við kvikmyndagerð tengda íþróttinni þar sem iðkendur hittast til þess að æfa saman úti og stofna svo hópa sem skapa myndbönd. Út frá þessari hefð þróast íþróttin að miklu leyti í gegnum Youtube og aðra samfélagsmiðla þar sem iðkendur deila myndböndum af nýjum hreyfingum eða áskorunum sem þeir yfirstíga.