Select Page

Þvílíkur dagur – Öll lið Íslands í verðlaunasæti

Íslenska kvennalandsliðið í áhaldafimleikum Norðurlandameistarar.

Íslensku konurnar unnu Norðurlandameistara titil í liðakeppni í Osló í dag og Hildur Maja Guðmundsdóttir gerði sér lítið fyrir og vann Norðurlandatitlinn í fjölþraut. Thelma Aðalsteinsdóttir vann silfurverðlaun í fjölþraut en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem tvær íslenskar konur komast á pall í fjölþraut.

Ísland hefur ekki unnið Norðurlandatitil í fjölþraut síðan 2006 þegar að Sif Páls vann titilinn á heimavelli og skrifar Hildur Maja því nafn sitt í sögubækurnar með frábærri frammistöðu í dag. En þetta er einnig í annað skiptið í sögunni sem liðið okkar vinnur liðakeppnina, en það var einnig á heimavelli árið 2016.

Íslenska liðið skipa; Freyja Hannesdóttir, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir.

Karlalandsliðið átti einnig dag sem fer í sögubækurnar þar sem liðið vann bronsverðlaun, en Ísland hefur aldrei unnið til verðlauna í liðakeppni karla. Valgarð Reinhardsson átti besta árangur íslensku keppendanna og varð í 4. sæti í fjölþraut.

Íslenska liðið skipa: Atli Snær Valgeirsson, Ágúst Ingi Davíðsson, Dagur Kári Ólafsson, Martin Bjarni Guðmundsson og Valgarð Reinhardsson

Á morgun fer fram keppni í úrslitum á áhöldum og íslensku keppendurnir unnu sér sæti í úrslitum á öllum áhöldum, bæði í karla og kvenna flokki.

Úrslit frá mótinu má skoða hér og myndir á myndasíðu sambandsins.

Framtíðin björt – unglingar á verðlaunapalli

Bæði lið Íslands í unglingaflokki á NM í Olsó unnu til verðlauna í dag. Stúlknaliðið varð í 2. sæti og drengjaliðið í 3. sæti. Þau Lúkas Ari Ragnarsson og Rakel Sara Pétursdóttir náðu besta árangi íslensku keppendanna í fjölþraut en Lúkas varð í 9. sæti og Rakel Sara í 5. sæti.

Mótið gekk vel og á morgun tekur við spennandi dagur þegar keppt er til úrslita á einstökum áhöldum, en þá etja kappi 6 bestu keppendur dagsins í dag.

Lið Íslands í drengjaflokki skipa; Ari Freyr Kristinsson, Kári Pálmason, Lúkas Ari Ragnarsson, Sólon Sverrisson og Stefán Máni Kárason.

Lið Íslands í stúlknaflokki skipa; Auður Anna Þorbjarnardóttir, Kolbrún Eva Hólmarsdóttir, Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Rakel Sara Pétursdóttir og Sigurrós Ásta Þórisdóttir.

Til hamingju með tímamóta árangur á NM – áfram Ísland