Select Page

Evrópska Fimleikasambandið gaf þær upplýsingar út í gær að Danmörk hefur dregið sig til baka sem mótshaldarar fyrir Evrópumótið í hópfimleikum 2021. Í póstinum kemur fram að öðrum þjóðum stendur til boða að halda mótið en það liggur ekki fyrir að neinn hafi sótt um það. Þangað til að það liggur fyrir, er óljóst að mótið verði haldið. Hér má sjá fréttina frá Evrópska Fimleikasambandinu.

Þetta eru að sjálfsögðu mikil vonbrigði fyrir alla sem að málinu koma. Við beinum þeim tilmælum til þjálfara og iðkenda að einbeita sér að sínu félagsstarfi og við munum koma með nýjar upplýsingar, um leið og þær liggja fyrir.

Þó að það verði að teljast ólíklegt er ekki loku fyrir það skotið að einhver vilji taka að sér mótshaldið sem yrði þá til þess að mótið verði haldið árið 2021. Ef það verður raunin þá munum við taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Ef ekki, verður nýtt undirbúningsferli skipulagt og sett af stað fyrir Evrópumót 2022.

Landsliðsþjálfarateymi héldu fundi með sínum liðum í gær þar sem iðkendum gafst tækifæri á að spyrja spurninga varðandi þessar upplýsingar. Þar gafst iðkendum einnig færi á að ræða sína upplifun og rætt var hvernig iðkendur og landsliðsþjálfarar ætla í sameiningu að nýta þessar fréttir á uppbyggjandi hátt.

Til stuðnings við iðkendur mun Fimleiksambandið bjóða þeim upp á einstaklingstíma hjá Hreiðari Haraldssyni íþróttasálfræði ráðgjafa hjá Haus hugarþjálfun í þessari viku.