Lög FSÍ
Samþykkt af ársþingi FSÍ
29. apríl 2017
I. Almenn ákvæði
1. grein – Heiti og aðsetur
Fimleikasamband Íslands (FSÍ) er samband fimleikaráða, héraðssambanda og íþróttabandalaga (íþróttahéraða) og eru öll félög íþróttahreyfingarinnar, er iðka, æfa, sýna og keppa í fimleikum aðilar að FSÍ í gegnum sambandsaðilana.
Aðsetur FSÍ og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein – Hlutverk og tilgangur FSÍ
FSÍ er æðsti aðili fimleikamála innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og er hlutverk þess í meginatriðum:
a) að hafa yfirstjórn íslenskra fimleikamála,
b) að vinna að eflingu fimleika á Íslandi og sjá um að haldin verði fimleikamót og fimleikaviðburðir,
c) að styðja við stofnun nýrra aðildarfélaga,
d) að setja nauðsynleg lög, reglugerðir og reglur og framfylgja þeim,
e) að koma fram sem sameiningaraðili fimleikafélaga innanlands,
f) að koma fram fyrir hönd íslenskra fimleika erlendis,
g) að vera í forsvari fyrir fimleikaíþróttina innan vébanda ÍSÍ,
h) að mennta og veita réttindi til þjálfara og dómara í greininni,
i) að kynna og koma á framfæri þeim breytingum og samþykktum, sem gerðar eru erlendis og breytt geta áherslum í íþróttinni hér á landi,
j) að velja einstaklinga, landslið og félög í landskeppni,
k) að vinna að öðrum þeim málum er varða fimleika á Íslandi.
FSÍ starfar sjálfstætt og er hlutlaust er varðar stjórnmál og trúarbrögð. Allir skulu njóta jafnræðis án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Allir skulu vera jafnir fyrir bæði lögum og reglum FSÍ.
3. grein – Aðildafélög
Réttur til aðildar
Öll félög innan ÍSÍ sem hafa iðkun fimleika á sinni stefnuskrá, eru aðilar að FSÍ, sbr. 1. gr.
Réttindi og skyldur aðildarfélaga
Öll aðildarfélög FSÍ hafa rétt til þátttöku í skipulögðum mótum og viðburðum á vegum FSÍ, enda uppfylli það þátttökuskilyrði samkvæmt lögum þessum og gildandi reglugerðum FSÍ.
Öll aðildarfélög FSÍ hafa rétt til þátttöku í fræðslukerfi FSÍ og á fræðsludegi FSÍ.
Aðildarfélögum ber skylda til að virða lög, reglugerðir, reglur og ákvarðanir sem teknar eru af FSÍ, ÍSÍ og alþjóðasamböndum.
Félag sem tekur þátt í mótum og/eða viðburðum á vegum FSÍ ber að sjá til þess að allir þátttakendur; keppendur, sýnendur, þjálfarar, dómarar og forystumenn innan vébanda félagsins virði lög, reglugerðir, reglur og ákvarðanir FSÍ, FIG og EG.
Aðildarfélög skuldbinda sig til að vinna að því að efla heilbrigðan íþróttaanda, búa iðkendum öruggt umhverfi án alls ofbeldis og stuðla að menningu virðingar og jafningjasamskipta.
Aðildarfélög skuldbinda sig til að vinna gegn hvers konar mismunun á grundvelli trúarskoðana, kynferðis, kynhneigðar, stjórnmálaskoðana, þjóðernis og/eða af öðrum ástæðum.
Aðildarfélög FSÍ skulu halda bókhald yfir starfsemi sína í samræmi við gildandi lög og reglur um bókhald.
Keppendur, sýnendur, iðkendur, þjálfarar og dómarar skulu vera skráðir í samræmi við reglugerð FSÍ.
Aðrar skyldur
Aðildarfélög, FSÍ, þátttakendur í móta- og/eða viðburðahaldi FSÍ og aðrir innan FSÍ skuldbinda sig til þátttöku í samræmi við ákvæði þessara laga, siðareglna og reglugerða FSÍ og í samræmi við lög og reglur FIG og EG. Ef ákvæði reglugerða FSÍ stangast á við eða ganga lengra en reglur FIG og EG, þá gilda reglugerðir FSÍ.
4. grein – Aðild FSÍ að samtökum
FSÍ er aðili að:
a. Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ),
b. Alþjóða fimleikasambandinu – Fédération Internationale de Gymnastique (FIG),
c. Evrópska fimleikasambandinu – European Gymnastics (EG)
II. Skipulag FSÍ
5. grein – Stjórnkerfi FSÍ og hlutverk
a) Fimleikaþing fer með æðasta vald um málefni FSÍ og setur lög.
b) Stjórn FSÍ fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli fimleikaþinga og setur reglugerðir, reglur og framfylgir þeim.
c) Formannaráð sem skipað er stjórnarmönnum FSÍ og formönnum deilda/félaga innan héraðssambanda / íþróttabandalaga / fimleikaráða og framkvæmdastjórum þeirra þar sem við á.
d) Fastanefndir sem vinna samkvæmt lögum og reglum FSÍ.
e) Nefndir sem stjórn er heimilt að skipa milli fimleikaþinga um tímbundin og afmörkuð verkefni.
III. Fimleikaþing
6. grein – Boðun fimleikaþings
Fimleikaþing skal halda fyrir lok júní ár hvert.
Stjórn FSÍ ákveður þingstað og skal boða bréflega til þingsins með minnst átta vikna fyrirvara. Heimilt er að senda boðunarbréf með tölvupósti.
Óheimilt er að halda fimleikaþing á sömu dögum og íþróttaþing eða formannafundir ÍSÍ fara fram.
Aðildarfélögum er óheimilt að hafa mót, sýningar eða aðra viðburði á sínum vegum á sama tíma og fimleikaþing er haldið.
7. grein – Undirbúningur fimleikaþings
Aðildarfélög skulu tilkynna stjórn FSÍ eigi síðar en þremur vikum fyrir þingsetningu um þær lagabreytingar, tillögur og málefni sem þau óska eftir að verði tekin fyrir á fimleikaþingi. Stjórn skal fela laga- og reglunefnd að yfirfara tillögur sem fram koma um lagabreytingar og kanna hvort þær samræmist lagaákvæðum og skuldbindingum sambandsins. Veita skal þeim sem leggur fram tillöguna tækifæri til að lagfæra hana, samræmist hún ekki lögum eða reglugerðum FSÍ. Þá skal laga- og reglunefnd FSÍ gefa þeim, sem hafa með viðkomandi málefni að gera innan FSÍ, kost á að koma fram með athugasemdir við tillöguna.
Stjórn FSÍ skal eigi síðar en tveimur vikum fyrir þingsetningu senda aðildarfélögum dagskrá fimleikaþings ásamt upplýsingum um viðfangsefni starfsnefnda þingsins, lagabreytingar, erindi og tillögur sem borist hafa, endurskoðaða reikninga sambandsins og starfs- og fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
Ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra fulltrúa á þinginu samþykkja skal taka fyrir mál sem borist hafa eftir að dagskrá þingsins var send út. Þetta á þó ekki við um lagabreytingar. Erindi /tillögur sem teknar eru inn samkvæmt framansögðu skal vísað í nefnd en raðast aftast í dagskrá nefndar.
8. grein – Réttur til setu á fimleikaþingi
Fimleikaþing sitja fulltrúar frá aðildarfélögum FSÍ með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt og fer hver fulltrúi með eitt atkvæði. Kjörnir fulltrúar í stjórn FSÍ og varamenn þeirra geta ekki farið með atkvæðisrétt á þingi.
Fjöldi fulltrúa hvers íþróttabandalags eða héraðssambanda á fimleikaþingi ákvarðast af tölu skráðra iðkenda aðildarfélaga/deilda miðað við fjölda iðkendaleyfa í Leyfiskerfi FSÍ þann 31. desember árið á undan, þannig að;
- fyrir fyrstu 50 iðkendur koma 2 fulltrúar
- 1 fulltrúa fyrir hverja 50 eða brot úr 50 upp í allt að 200 iðkendur
- 1 fulltrúa að auki fyrir hverja 100 iðkendur þar fram yfir
Héraðssambandi eða íþróttabandalagi er heimilt að senda fulltrúa aðildarfélags/deildar sem fulltrúa á fimleikaþing þótt félagið/deildin sé í skuld við FSÍ miðað við 1. september fyrir fimleikaþing, en þó án atkvæðisréttar á fimleikaþinginu og ber kjörbréfanefnd að ganga úr skugga um að ákvæðinu sé framfylgt.
Á fimleikaþingi eiga auk kjörinna fulltrúa rétt til þingsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt:
a) stjórnarmenn FSÍ, aðal – og varamenn, og skoðunarmenn reikninga
b) nefndarmenn FSÍ,
c) fyrrverandi formenn FSÍ,
d) framkvæmdastjórn og forseti ÍSÍ,
e) framkvæmdastjóri FSÍ,
f) fulltrúi ráðuneytis íþróttamála,
g) fulltrúi Fimleikadómarafélags Íslands,
h) aðrir sem stjórn FSÍ telur ástæða til að bjóða.
9. grein – Dagskrá fimleikaþings
1) Þingsetning og staðfesting lögmætis þingsins.
2) Kjör þingforseta, þingritara og þriggja manna kjörbréfanefndar.
3) Afhending kjörbréfa. Kjörbréfanefnd hefur störf.
4) Formaður leggur fram skýrslu stjórnar og fastanefnda.
5) Áritaðir reikningar sambandsins lagðir fram og skýrðir.
6) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga sambandsins.
7) Ávörp gesta.
8) Álit kjörbréfanefndar borið undir atkvæði.
9) Reikningar bornir undir atkvæði.
10) Kosning formanna starfsnefnda þingsins. Stjórn FSÍ skal skipa erindum sem berast þinginu til umfjöllunar í starfsnefndir þingsins. Stjórn getur falið fleiri en einni nefnd að fjalla um einstakar tillögur. Heimilt er að eftirtaldar starfsnefndir starfi á þinginu:
a) nefnd um áhaldafimleika karla,
b) nefnd um áhaldafimleika kvenna,
c) nefnd um hópfimleika,
d) nefnd um almenna fimleika/fimleika fyrir alla,
e) fræðslunefnd,
f) laga- og reglunefnd,
g) fjárhags- og útbreiðslunefnd,
h) aðrar nefndir samkvæmt ákvörðun þings hverju sinni.
11) Stjórn leggur fram tillögu að starfsáætlun til eins árs og skal henni vísað til fjárhagsnefndar.
12) Stjórn leggur fram tillögu að fjárhagsáætlun til eins árs og skal henni vísað til fjárhagsnefndar.
13) Kynntar breytingar á lögum sambandsins og tillögur sem liggja fyrir þinginu og þeim vísað til umsagnar viðeigandi starfsnefnda þingsins.
14) Starfsnefndir þingsins taka til starfa.
15) Formenn starfsnefnda gera grein fyrir störfum nefnda.
16) Atkvæðagreiðsla um:
a) lagabreytingar,
b) starfsáætlun til eins árs,
c) fjárhagsáætlun til eins árs,
d) tillögu stjórnar um fjárhæð og fyrirkomulag leyfisgjalda,
e) almennar tillögur.
17) Kosningar.
18) Kosning fulltrúa á íþróttaþing ÍSÍ.
19) Önnur mál.
20) Þingforseta og þingritara falið að ganga frá þinggerð.
21) Ávarp formanns.
22) Þingslit.
Stjórn FSÍ skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ, aðildarfélögum og sambandsaðilum FSÍ þinggerð ársþings og gildandi lög og reglugerðir sambandsins í síðasta lagi 1. ágúst ár hvert
10. grein – Atkvæðagreiðsla
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála, nema um lagabreytingar, þá þarf samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra þingfulltrúa.
Þingfulltrúar á fimleikaþingi greiða atkvæði um mál með handauppréttingu. Ef ¼ hluti þingfulltrúa óskar eftir skriflegri atkvæðagreiðslu, skal þingforseti verða við ósk þeirra
11. grein – Kosning stjórnar
Stjórn FSÍ er kosin á fimleikaþingi og hafa allir kjörnir þingfulltrúar atkvæðisrétt. Kosning stjórnar skal fara þannig fram:
a) kosning formanns til tveggja ára, á öðru hverju fimleikaþingi,
b) kosning sex meðstjórnenda, kjörtímabil er 2 ár og skal helmingur meðstjórnenda kjörinn á hverju fimleikaþingi,
c) kosning tveggja einstaklinga í varastjórn, kjörtímabil er 2 ár og skal annar þeirra kjörinn á hverju fimleikaþingi.
Tilkynningar um framboð til formanns og stjórnar FSÍ skulu berast skrifstofu sambandsins minnst tveimur vikum fyrir fimleikaþing. Kjörnefnd er þó heimilt að framlengja framboðsfrest ef nægjanlegur fjöldi hefur ekki tilkynnt framboð sitt innan áðurgreinds frests.
Kosningar til embættisins formanns og stjórnar FSÍ eru skriflegar og leynilegar nema frambjóðendur séu jafnmargir og kjósa skal. Þeir sem hljóta flest atkvæði eru rétt kjörnir. Fái fleiri en tveir menn jafnmörg atvkæði skal kjósa á ný um þá. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Þingfulltrúum er ekki skylt að kjósa þann fjölda sem þarf til að fullskipa stjórn.
12. grein – Aðrar kosningar
Kosið er í eftirtaldar nefndir FSÍ á fimleikaþingi og hafa allir kjörnir þingfulltrúar atkvæðisrétt.
Kosning skal fara þannig fram:
a) kosning tveggja skoðunarmanna reikninga,
b) kosning þriggja fulltrúa og þriggja til vara í kjörnefnd,
c) kosning þriggja fulltrúa og þriggja til vara í laga- og reglunefnd til tveggja ára.
Um kosningarnar gilda ákvæði 3. mgr. 11. gr.
14. grein – Aukaþing
Aukaþing skal kallað saman ef nauðsyn krefur að mati stjórnar FSÍ eða ef helmingur aðildarfélaga óskar þess skriflega við stjórn sambandsins. Boðunar- og tilkynningafrestur til aukaþings skal vera fjórar vikur.
Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum örsökum eða ef stjórnin er að eigin dómi óstarfhæf.
Að öðru leyti gilda um aukaþing sömu ákvæði og um reglulegt fimleikaþing.
IV. Stjórn FSÍ
14. grein – Skipan stjórnar FSÍ.
Stjórn FSÍ skipa sjö menn sem kosnir eru á fimleikaþingi. Formaður er kosinn sérstaklega. Kjósa skal tvo varamenn meðstjórnenda og skulu þeir taka sæti í stjórn í sömu röð og þeir eru kosnir.
Skipan og hlutverk stjórnar skal vera eftirfarandi:
- formaður,
- sex meðstjórnendur sem skipta með sér verkum sem hér segir:
- varaformaður
- ritari
- gjaldkeri
- meðstjórnandi
- meðstjórnandi
- meðstjórnandi
Fastanefndir FSÍ eiga rétt á að tilnefna einn fulltrúa til setu á hverjum stjórnarfundi FSÍ með málfrelsi og tillögurétt.
15. grein – Starfstími stjórnar FSÍ, hæfi o.fl.
Starfstími stjórnar hefst að loknu fimleikaþingi.
Stjórn FSÍ skal koma saman til fundar minnst sex sinnum á ári. Ef þrír aðalmenn óska eftir fundi skal boða til fundar. Formaður boðar til stjórnarfundar en getur falið framkvæmdastjóra að sjá um undirbúning funda og boðun. Formaður stýrir fundum. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Verði atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns. Stjórn er ákvörðunarhæf þegar þrír stjórnarmenn eru viðstaddir fund.
Framkvæmdastjóri skal sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.
Stjórnarmenn skulu víkja sæti ef fjallað er um málefni sem valda því að draga megi óhlutdrægni þeirra með réttu í efa.
Fundargerðir stjórnar skal birta á heimasíðu FSÍ innan viku frá fundi.
Stjórn FSÍ skal setja sér starfsreglur, m.a. um ákvarðanatöku, boðun og stjórnun funda.
16. grein – Réttindi
Til að tryggja að stjórn FSÍ, aðal- og varamenn, framkvæmdastjóri og aðrir launaðir starfsmenn og nefndarmenn fastanefnda FSÍ geti fylgst með viðburðum á vegum sambandsins og aðildarfélaga, skulu þeir hafa endurgjaldslausan aðgang að öllum fimleikamótum og sýningum sem fram fara innan vébanda FSÍ.
Einnig hafa þeir rétt til að sitja aðalfundi aðildarfélaga.
17. grein – Ábyrgð og starfssvið stjórnar FSÍ
Stjórn FSÍ ber ábyrgð á starfsemi sambandsins og fer með framkvæmda- og ákvörðunarvald sambandsins milli fimleikaþinga í samræmi við samþykktir þingsins.
Stjórn FSÍ ber ábyrgð á fjármálum sambandsins og hefur endanlegt ákvörðunarvald um verkefni sem kalla á fjárútlát í samræmi við starfs- og fjárhagsáætlun, s.s. þátttöku í erlendum mótum/viðburðum og önnur verkefni sem kalla á sérstakar fjárveitingar. Heimilt er að stofna til fjárútláta vegna tilfallandi verkefna ef þau rúmast innan fjárhagsáætlunar.
Stjórn skipar fastanefndir sambandsins og skulu verkefni þeirra skilgreind í starfsreglum settum af stjórn. Aðildarfélögum er heimilt að senda stjórn tilnefningar um nefndarmenn í fastanefndir sambandsins, sbr. fyrirmæli 18. gr. um kosningu í fastanefndir. Hver sá sem hefur áhuga á að starfa í nefndum á vegum FSÍ getur einnig gefið kost á sér til nefndarstarfa.
Stjórn boðar formannaráðsfundi og skulu formenn allra fastanefnda á vegum FSÍ jafnframt vera boðin þátttaka á fundinum.
Löglega settar reglugerðir, reglur og aðrar löglega teknar ákvarðanir stjórnar FSÍ eru bindandi fyrir stjórn, aðildarfélög og nefndarmenn sambandsins innan þeirra marka sem varða verkefni FSÍ.
V. Nefndir FSÍ
18. grein – Fastanefndir FSÍ
Á fyrsta stjórnarfundi eftir fimleikaþing skal skipa í eftirtaldar fastanefndir sambandsins.
Stjórn skal skipa:
a) Fimm manna tækninefnd karla í áhaldafimleikum,
b) Fimm manna tækninefnd kvenna í áhaldafimleikum,
c) Fimm manna tækninefnd í hópfimleikum,
d) Fimm manna fræðslu og útbreiðslunefnd,
e) Fimm manna nefnd um fimleika fyrir alla,
f) Þriggja manna nefnda um fjáröflunar- og markaðsmál.
Stjórn skipar formenn ofangreindra nefnda úr hópi nefndarmanna.
Fastanefndir starfa í umboði stjórnar samkvæmt lögum og reglum sambandsins. Starfstímabil nefndanna eru tvö ár og miðast við kjör formanns FSÍ. Láti nefndarmaður af störfum fyrir þann tíma, leitast stjórn við að finna einstakling í hans stað. Fastanefndir hafa ekki sérstakan fjárhag eða ákvörðunarvald og er þeim óheimilt að stofna til útgjalda eða skuldbinda sambandið fjárhagslega. Stjórn er þó heimilt að fela nefndum ákveðna ábyrgð sem skal skilgreind í starfsreglum nefnda.
Stjórn setur fastanefndum starfs- og siðareglur og hefur eftirlit með störfum þeirra. Í starfsreglum nefnda skal kveðið á um verkaskiptingu innan nefnda, boðun funda, fundargerðir, birtingu fundargerða, hæfi o.fl.
Nefndarmenn í nefndum á vegum FSÍ sækja umboð sitt til stjórnar FSÍ og getur stjórn afturkallað það umboð gagnvart einstaka nefndarmanni og eða nefnd í heild sinni og skipað annan nefndarmann í hans stað og eða alla nefndarmenn ef því er að skipta,
Stjórn er heimilt að skipa nefndir um tímabundin og/eða afmörkuð verkefni.
19. grein
Laga – og reglunefnd
Nefndin er stjórn FSÍ til ráðgjafar um lög og reglur sambandsins. Nefndin fer yfir tillögur að laga- og reglugerðarbreytingum. Nefndin vinnur að öðruleyti þau verkefni sem henni eru falin í starfsreglum.
Kjörnefnd
Nefndin tekur á móti tillögum um skipun í stjórn FSÍ og annarra trúnaðarstarfa sem kosið er til á fimleikaþingi og leggur fyrir fimleikaþing.
Aga- og siðanefnd
Aga- og siðanefnd FSÍ skal skipuð 3 mönnum. Skal a.m.k. einn aðalmaður vera löglærður. Nefndin er ráðgefandi fyrir stjórn FSÍ og aðildarfélögin þegar kemur að málefnum sem snerta aga- og siðareglur sambandsins.
Heilbrigðisnefnd
Heilbrigðisnefnd skal skipuð 4 mönnum. Ábyrgðarmaður skal hafa menntun á sviði heilbrigðismála s.s. læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari eða sjúkraflutningamaður. Einnig skal hann hafa góða þekkingu á fyrstu hjálp. Nefndin er ráðgefandi fyrir stjórn og aðildarfélög sambandsins um heilbrigðismál og fræðslu.
Mannvirkjanefnd
Mannvirkjanefnd skal skipuð að lágmarki 2 einstaklingum. Nefndin er stjórn FSÍ og aðildarfélögum sambandsins til ráðgjafar um fimleikamannvirki, öryggisstaðla og endurnýjun á áhöldum. Nefndin er einnig ráðgefandi fyrir félög sem eru í byggingarferli á fimleikahúsnæði, ásamt því að annast flokkun keppnissala og gerir tillögur til stjórnar FSÍ um veitingu keppnisleyfa fyrir fimleikasali til mótahalds.
Móttökunefnd og erlent samstarf
Móttökunefnd skal skipuð að lágmarki 2 einstaklingum. Nefndin skipuleggur, í samvinnu við skrifstofu FSÍ, allar heimsóknir erlendra sambandsaðila á vegum FSÍ til Íslands. Nefndin er einnig ráðgefandi fyrir stjórn FSÍ varðandi stefnumótun og þátttöku í erlendu samstarfi.
VI. Formannaráð FSÍ
20. grein – Skipan, tilgangur, fundir og starfssvið
Stjórn FSÍ, aðal- og varamenn, formenn deilda/félaga innan héraðssambanda/íþróttabandalaga/fimleikaráða og framkvæmdastjórum þeirra þar sem við á, skipa formannaráð. Það skal kallað saman minnst einu sinni á ári. Stjórn FSÍ ákveður fundarstað og fundartíma. Að jafnaði skal boða til fundar með minnst tveggja vikna fyrirvara.
Formannaráð er ráðgefandi fyrir stjórn FSÍ varðandi starfsemi sambandsins og málefni hreyfingarinnar.
Þeir sem skipa formannaráð skulu senda tilkynningu um málefni sem þeir óska eftir að fjallað verði um á fundinum eigi síðar en viku eftir dagsetningu fundarboðs.
Á formannaráðsfundi skal stjórn FSÍ kynna fyrirhugað starf sambandsins, mót og keppnismöguleika erlendis, skipulag verkefna innan lands og erlendis og kostnaðaráætlun slíkra verkefna. Einnig skulu kynntar breytingar á reglum sambandsins, nýungar og breytingar á regluverki þeirra samtaka sem FSÍ er aðili að og annað er varðar íþróttina og rekstur sambandsins.
VII. Framkvæmdastjóri FSÍ
21. grein
Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra með prókúruumboð.
VIII. Dómsmál
22. grein – Dómsmál
Dómsstólar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hafa lögsögu um þau mál sem upp kunna að koma innan fimleikahreyfingarinnar, samkvæmt 1. grein í lögum um dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
IX. Reikningar
23. grein – Reikningsárið
Reikningsár FSÍ er almannaksárið.
Reikningar FSÍ skulu undirritaðir af stjórn FSÍ, framkvæmdastjóra og skoðunarmönnum reikninga.
X. Ýmis ákvæði
24. grein – Leyfiskerfi FSÍ
Stjórn FSÍ hefur heimild til að taka upp leyfiskerfi sem taki til iðkenda, þjálfara, keppenda, dómara og félaga. Nánar skal kveðið á um útfærslu á leyfiskerfinu og einstökum þáttum þess, s.s. á skilyrðum einstakra leyfa í reglum sem stjórn setur.
25. grein – Reglur og reglugerðir
Stjórn FSÍ setur reglugerðir/reglur um mótahald, félagaskipti, dómararéttindi, viðurkenningar, styrktarfélaga, leyfiskerfi og um annað sem varða rekstur og regluverk sambandsins.
Reglugerð eða reglur stjórnar FSÍ, sem samþykktar eru af stjórn sambandsins með heimild í b. lið 5. gr. eða 1. mgr. 25. gr. laga þessara, og innihalda ákvæði sem leggja fjárhagslegar kvaðir á aðildarfélög, skulu ekki taka gildi fyrr en að fengnu samþykki fimleikaþings.
FSÍ skal gæta samræmis við reglur og ákvarðanir ÍSÍ, FIG og EG. Reglur og ákvarðanir FSÍ eru bindandi fyrir aðila að FSÍ, félög, iðkendur, dómara, þjálfara, forystumenn og aðra þá sem eru innan vébanda aðildarfélaga FSÍ.
26. grein
Breytingar á lögum þessum skulu lagðar fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ til staðfestingar, sbr. grein 46.2 í lögum ÍSÍ.
27. grein
Lög ÍSÍ ráða þar sem fyrirmæli skortir í lögum þessum.
28. grein
Lög þessi sem samþykkt voru á fimleikaþingi 23. apríl 2022 öðlast gildi við staðfestingu ÍSÍ.
Eldri lög FSÍ falla úr gildi frá þeim tíma.