Select Page

Íslandsmót í frjálsum æfingum karla, kvenna og unglinga fer fram í Íþróttahúsi Gerplu, Versölum, dagana 11. og 12. júní. Mótið er sýnt í beinni útsendingu á RÚV.

Keppt er í einstaklingskeppni, í fjölþraut og í úrslitum á einstökum áhöldum.

  • Laugardagur 11. júní – Keppt í fjölþraut. Keppni hefst kl. 14:40 og lýkur um kl. 18:00
  • Sunnudagur 12. júní – Keppt í úrslitum á einstökum áhöldum. Keppni hefst kl. 15:30

Til keppni eru skráðir 17 keppendur í kvennaflokki, 28 keppendur í unglingaflokki stúlkna,11 keppendur í karlaflokki og 8 keppendur í unglingaflokki drengja.

Ríkjandi Íslandsmeistarar

Nanna Guðmundsdóttir úr Gróttu og Valgarð Reinhardsson úr Gerplu eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Þetta var í fyrsta sinn sem Nanna hlaut Íslandsmeistaratitil í fjölþraut, en Valgarð vann sinn fimmta Íslandsmeistaratitil. Myndir frá mótinu í fyrra má finna hér á myndasíðu sambandsins.

Í öðru sæti í karlaflokki var Jónas Ingi Þórisson sem var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki og í þriðja sæti var Eyþór Örn Baldursson. Keppnin var spennandi í kvennaflokki en einungis munaði hálfu stigi á milli Nönnu og Hildar Maju Guðmundsdóttur úr Gerplu. Bronsið féll í skaut Margrétar Leu Kristinsdóttur úr Björk.

Í beinni á RÚV

RÚV sýnir frá mótinu í beinni, bæði laugardag og sunnudag og hefst útsendingin kl. 16:00 báða dagana.