Nú á sunnudaginn fóru fram Íslandsleikar Special Olympics í nútímafimleikum í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ. Mótið er það fyrsta sem er haldið á vegum FSÍ en Íþróttafélagið Ösp, sem var með keppendur á mótinu, gerðist aðildarfélag FSÍ nú í haust. Mótið var haldið í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra.
10 keppendur voru mættir til leiks og kepptu í þrem þrepum: Level C, Level 1 og Level 3. Ólíkt íslenska fimleikastiganum og flokkakerfi í hópfimleikunum þá verða þrepin (e. Level) erfiðari eftir því sem þau hækka. 2 keppendur kepptu í Level C, 6 keppendum í Level 1 og 2 keppendur í Level 3.
Mótið gekk mjög vel fyrir sig og geislaði ánægjan af keppendunum sem ekki hafa keppt í langan tíma sökum Covid. Það var hart barist í Level 3 en þær Hekla Björk Hólmarsdóttir og Luiza Katarzyna Kierzk hafa báðar æft nútímafimleika frá því að Öspin hóf æfingar í nútímafimleikum. Það munaði ansi litlu á milli þeirra, en aðeins 0,1 stig skyldi þær að. Var það Luiza sem bar sigur að hólmi í þetta skipti en Hekla hefur verið mjög sigursæl síðustu árin. Báðar voru þær að keppa í þessu þrepi í fyrsta skipti og má geta þess að þrepið fyrir ofan þetta þrep eru frjálsar æfingar. Þess má geta að Hekla Björk hóf fimleikagöngu sína í Special Olympics áhaldafimleikahóp hjá Gerplu fyrir mörgum árum síðan og blómstrar nú á ný á þessum vettvangi eftir að hún hætti í áhaldafimleikum. Hekla ásamt Örnu Dís Ólafsdóttur voru fyrstar til að keppa fyrir Íslands hönd í nútímafimleikum á Special Olympics, en þær kepptu á leikunum árið 2019 í Abu Dhabi og komu að sjálfsögðu heim með verðlaun.
Í Level 1 var það Glódís Erla Ólafsdóttir sem lenti í fyrsta sæti, í öðru sæti var Nína Margrét Ingimarsdóttir og í því þriðja var það hún Linda Kristine Lanz.
Í Level C var sigurvegarinn hún Eyrún Linnea Gísladóttir og í öðru sæti hafnaði Birta Möller Óladóttir.
Fimleikasambandið óskar keppendum til hamingju með árangurinn, þakkar Íþróttasambandi fatlaðra fyrir samstarfið og Fimleikadeild Keflavíkur fyrir mótahaldið. Einnig langar okkur að hvetja önnur félög á landinu til að prófa að setja nútímafimleika fyrir fatlaða inn í sitt starf og mæta til leiks á Íslandsleikana á næsta ári.
Magnús Orri Arnarson, iðkandi í SO hópi í áhaldafimleikum hjá Gerplu, mætti á mótið og tók upp fyrir okkur þetta skemmtilega myndband. Takk Magnús!