Select Page

Íslenska karlandsliðið í áhaldafimleikum keppti á þrem áhöldum í dag á fyrri undanúrslita degi á World challenge cup í Osijek í Króatíu. Átta efstu keppendur á hverju áhaldi komast í úrslit sem fara fram á laugardag og sunnudag.

Þeir Dagur Kári Ólafsson og Arnþór Daði Jónasson hófu keppni á bogahesti og gerðu báðir glæsilegar seríur. Dagur Kári endaði í 15. sæti með einkunnina 13.150 en Arnþór Daði í því 23. með 12.250 stig. Næst var komið að Valgarð Reinhardssyni og Degi Kára á tvíslánni, aftur endaði Dagur Kári 15. með 13.300 stig og Valgarð í 22. sæti með 12.850 stig. Gólfið var síðast hjá okkar keppendum, þar náði Jónas Ingi Þórisson góðum árangri sem skilaði honum 12. sæti með 13.350 stig. Martin Bjarni Guðmundsson var einnig skráður til keppni á gólfinu en eftir slæma lendingu í upphitun var tekin ákvörðun að keppa ekki í dag.

Á morgun verður keppt á stökki, svifrá og hringjum. Martin Bjarni stefnir á keppni á stökki og svifrá. Valgarð keppir á svifrá og Ágúst Ingi Davíðsson í hringjum. Keppni hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.

Hér er má sjá úrslit mótsins.

Hér má sjá myndir af mótinu.