Select Page

Elva Björg Gunnarsdóttir er 39 ára fimleikamær sem æfir áhaldafimleika með Special Olympics hóp Gerplu. Elva lauk nú á dögunum 25. fimleikavetrinum sínum en fimleikaferill hennar hófst árið 1997 hjá Fimleikadeild Ármanns en árið 2005 fór hún að æfa með Gerplu þar sem að félagið bauð upp á fimleika fyrir fatlaða og sá hún þá tækifæri á fá hugsanlega að keppa erlendis.

Elva Björg er fædd árið 1984 og var lengi vel vitað að hún væri með þroskaskerðingu en í fjölda ára var hún ógreind þrátt fyrir margar rannsóknir. Það var ekki fyrr en árið 2019 sem systir hennar Elvu fann grein um Kabuki heilkennið í blaði sem sem hún sendi á mömmu þeirra þar sem henni fannst Elva svo lík fólkinu í greininni.

Þetta var smá sjokk, það var alltaf verið að rannsaka mig þegar ég var yngri. Svo þegar ég var 35 ára fór ég í svona erfðarannsókn og svo bara eftir 6 vikur er komið í ljós að ég er með þetta heilkenni 35 ára gömul og búin að vera með þetta frá fæðingu.

Kabuki heilkennið er vegna stökkbreytingu í geni sem hefur áhrif á virkni margra litninga og getur fólk með þennan sjúkdóm orðið fyrir ýmsum einkennum líkt og miðlungsmikillri viðskerðingu, seinkun á vexti, lágri vöðvaspennu, miklum liðleika o.s.frv. Rétt áður en Elva fékk greininguna þá hafði hún ákveðið að hætta í fimleikum þar sem að henni leið ekki vel andlega og fór að vera ólík sjálfri sér. Stuttu eftir að hún hætti að æfa fimleika og um það leiti sem hún fékk greiningu fór þjálfari hennar, Eva Hrund, að hvetja hana til að prófa aðrar íþróttir þar sem að vitað er að hreyfing hefur góð áhrif á andlega heilsu. Elva prófaði þó ekki aðrar íþróttir en ákvað í samráði við þjálfara sinn að mæta upp í Gerplu og heilsa upp á gömlu liðsfélaga sína og jafnvel taka örlitla hreyfingu með þeim.

Ég tók mér hlé og ætlaði að hætta en það var bara í í tæpt hálft ár en Eva þjálfari dró mig á þrekæfingu þegar ég var búin að jafna mig að mestu leiti og út frá því byrjaði ég aftur, ég þurfti að taka mér smá frí vegna erfiðs tímabils en það er búið í dag. Ég fann að það hafði góð áhrif á andlega heilsu mína að hreyfa mig og byrja aftur í fimleikum.

Elva hitti naglann á höfuðið þegar hún hóf æfingar hjá Gerplu því stuttu seinna fékk hún í fyrsta skipti tækifæri á að keppa á alþjóðlegum vettvangi. Fyrsta mótið hennar var árið 2006, ári eftir að hún byrjaði í Gerplu, en þá fór hún á Evrópuleika Special Olympics í Róm. Ári seinna, árið 2007, fór hún á Heimsleika Special Olympics í Kína og svo að lokum fór hún á Heimsleikana í Aþenu árið 2010. Elva setti sér ávallt það markmið að fara aftur á Heimsleika Special Olympics í hverjum mótahring en því miður er það þannig að það er ekki nóg að vera góður í fimleikum og mæta vel til að fara á leikana þar sem að leikarnir snúast um það að allir fái tækifæri til að keppa að minnsta kosti einu sinni. Fjölgun kvenna í áhaldafimleikum fatlaðra hafði þau áhrif að Elva átti ekki möguleika á að fara á leikana árið 2015 og 2019 henni til mikillrar gremju. En nú loksins árið 2023 fær hún annað tækifæri og þar sem að hún var valin til þess að keppa á Heimsleikunum í Berlín sem hefjast núna í næstu viku og er hún afar spennt fyrir því tækifæri.

Berlín 2023 er svo næst á dagskrá, ég er mjög spennt og ætla bara að halda áfram að æfa fimleika þangað til að ég get ekki meir. Ég myndi ekki fara í aðra íþrótt, held ég geti ekki hætt, það er svo mikið að góðu fólki hérna í salnum. Ég færi svoldið mikið að sakna fólksins.

En af öllum þessu mótum hvað var skemmtilegast mótið hennar?

Það eru Heimsleikarnir í Kína árið 2007. Það eru svo margar minningar, sérstaklega því að Dorrit Moussaieff og Óli forseti voru þar – það er svo skemmtileg hvað Dorrit er yndisleg manneskja. Við stelpurnar vorum á æfingu inn í sal þegar strákarnir voru að keppa og þau fóru að horfa á strákana keppa. Þau komu að hitta okkur stelpurnar í fundaherbergi og ég var lasin á þessum tíma, ég keppti með 40 stiga hita. Svo fer ég að hósta inn í þessu fundarherbergi, um leið og Dorrit heyrir hóstann í mér þá krefst hún þess að það verði settur meiri hiti inn í þetta fundarherbergi. Og það var gert sko. Það var settur meiri hiti.

Þegar við spyrjum Elvu hvort henni finnist skemmtilegra að keppa erlendis eða á Íslandi segir hún utanlandsferðirnar vera meira ævintýri en það sé alltaf gaman að keppa á Íslandi því þá fái hún stuðninginn í stúkunni.

Ég á svoldið marga stuðningsmenn. Ég er líka mjög dugleg að styðja alla hina.

Og það er sko alveg rétt hjá henni Elvu, hún mætir á öll FSÍ mót og styður keppendur ákaft úr stúkunni, enda hlaut hún viðurkenninguna Garpur Gerplu árið 2012.

Elva studdi íslensku keppendurnar dátt á Evrópumótinu ´í hópfimleikum sem haldið var á Íslandi árið 2014.

Við vitum ekki til þess að einhver fimleikaiðkandi á Íslandi hafi æft fimleika jafn lengi og Elva samfleytt en samkvæmt henni er það félagsskapurinn og skemmtilegir þjálfarar sem draga hana áfram og halda henni í greininni. Hún segir að það skemmtilegasta við að æfa fimleika séu áhöldin og að æfa með skemmtilegu fólki og getur ekki alveg ákveðið sig hvaða áhald sé skemmtilegast en hún setur tvíslánna í síðasta sæti þó henni finnist hún alveg ágæt. En hvað finnst Elvu um það að vera líkt við fimleikadrottninguna Oksana Chusovitina, frá Úsebekistan, sem hefur verið afrekskona í fimleikum í yfir 30 ár

Ég er bara alveg rosalega stolt og hreykin af þeim heiðri en gæti þetta aldrei ef ég hefði ekki þetta góða fólk upp í Gerplu og bestu þjálfara í heimi.

Að lokum hvetur Elva aðra áfram og segir:

Haldið áfram að hreyfa ykkur, það er svo mikilvægt og gott fyrir góða heilsu. Mitt móttó í lífinu er: Ég gefst aldrei upp.

Myndir af myndasíðu Gerplu og FSÍ.

Við þökkum Elvu Björg fyrir viðtalið og hlökkum til að fylgjast með fimleikaðiðkun hennar næstu áratugi. Einnig óskum við henni og liðsfélögunum hennar velfarnaðar og góðs gengis á Heimsleikunum í Berlín.

#Fimleikarfyriralla
#ÁframÍsland