Select Page

Keppnidegi tvö hjá íslensku keppendunum á HM í áhaldafimleikum er nú lokið. Dagur Kári steig á svið um klukkan 08:00 á íslenskum tíma.

Dagur var einstaklega óheppinn þegar að gömul meiðsli tóku sig upp í upphitunarsalnum og eftir frekari athugun sjúkraþjálfara, sem og þjálfara var ákvörðun tekin að draga Dag Kára úr fjölþrautarkeppninni, en ákvað hann þó að láta reyna á keppni á bogahesti með smávægilegum breytingum á keppnisseríu. Dagur mætti einbeittur til keppni á bogahestinum og sýndi hvað í honum býr og kláraði keppnina með glæsibrag.

Serían skilaði honum 12.533 stig, en keppti hann í dag á sínu fyrsta Heimsmeistaramóti.

Fimleikasamband Íslands óskar Degi Kára, þjálfurum og Gerplu innilega til hamingju með árangurinn í dag og hlökkum við til að fylgjast með þessum frábæra fimleikamanni vaxa og dafna í framtíðinni.

Myndir frá deginum í dag eru komnar inn á myndasíðu sambandsins.

Íslenska kvennalandsliðið keppir á morgun!

Næst á dagskrá er keppni hjá íslenska kvennalandsliðinu, þær Margrét Lea og Thelma hafa æft stíft hérna út í Belgíu og bíðum við spennt eftir morgundeginum, þar sem að þær munu stíga á stóra sviðið klukkan 19:15 á íslenskum tíma. Hvetjum við alla fimleikaáðdáendur til þess að fylgjast vel með í beina streyminu á morgun.

Áfram Ísland!