Framhaldsþing ÍSÍ fór fram síðustu helgi í Gullhömrum. Á þinginu hlaut Birna Björnsdóttir, fyrrum formaður FSÍ, heiðurskross ÍSÍ og Árni Þór Árnason, fyrrum formaður FSÍ, varð nýr Heiðursfélagi ÍSÍ.
Birna Björnsdóttir
Saga Birnu í fimleikahreyfingunni hófst árið 1974 þegar dætur hennar fóru að æfa fimleika hjá Íþróttafélaginu Gerplu. Á þeim tíma vantaði alltaf aðstoð foreldra og voru þau hjónin fastagestir á æfingum og ekki nóg með það þá gerðist maðurinn hennar meira að segja aðstoðarþjálfari hjá Margréti Bjarnadóttur með meistarahóp og unglingahóp. Birna starfaði þar sem stjórnarmaður og síðar formaður félagsins.
Birna var kosin í stjórn FSÍ árið 1979 og sat í stjórn til ársins 1988, þar af sem formaður árin 1985-1988. Eftir það sat Birna af og til í stjórn sambandsins til ársins 2012. Störf Birnu hjá FSÍ voru ýmisleg í gegnum árin ásamt því að sitja í stjórn:
- Tækninefnd kvenna í áraraðir.
- Formaður í tækninefnd Norræna sambandsins.
- Tækninefnd í nútímafimleikum.
- Fræðslunefnd og sótti hún m.a. á fræðsluráðstefnur Norðurlandanna nokkrum sinnum.
- Nefnd um fimleika fyrir alla.
- Tækninefnd í hópfimleikum Íslands og Norðurlandanna.
- Alþjóðlegur dómari, hún dæmdi á erlendum mótum og þar á meðal á fyrsta erlenda alþjóðlega hópfimleikamótinu sem haldið var í Lúxemborg árið 1980.
- Lands- og sambandsdómari.
- Fulltrúi á ótal þingum hér heima og erlendis þ.á.m. Norðurlandanna, UEG og FIG.
- Farastjóri á mörgum erlendum mótum í áhalda- og hópfimleikum.
- Farastjóri á almennum fimleikahátíðum líkt og Gymnastrada, Golden Age og Eurogym.
- Stjórnarmaður Almennra fimleika í Evrópu í 7 ár og sem formaður í 3 ár.
- Stjórnarmaður í FIG Council í 4 ár.
- Aðalmaður í framkvæmdaráði Ólympíusambands Íslands í 2 ár og sem varamaður í 4 ár.
Í frétt á heimasíðu ÍSÍ um viðurkenningu Birnu kemur eftirfarandi fram:
Birna hefur verið leiðtogi í fimleikahreyfingunni á Íslandi í áratugi. Hún sat í stjórn Fimleikasambands Íslands sem meðstjórnandi, síðar varaformaður og sem formaður frá árinu 1986 – 1988. Síðar sneri hún aftur í stjórn og gegndi meðal annars varaformennsku frá 2008 – 2012. Birna var mjög virk í alþjóðastarfi fimleika, innan Fimleikasambands Norðurlanda, Evrópska fimleikasambandsins og Alþjóðafimleikasambandsins þar sem hún lét mikið að sér kveða.
Fimleikasambandið er stolt af henni og öllum hennar störfum í þágu fimleika á Íslandi og Birna er, eins og gefur að skilja, alsæl með viðurkenninguna frá ÍSÍ og sagði við tilefnið:
Það var bara dásamlegt að taka á móti þessari viðurkenningu sem ég á ekki bara ein. Margir koma þarna að og vil ég nefna sérstaklega manninn minn sem hefur þolað allt þetta brambolt á mér. Það eru ekki ófáar ferðir sem hann keyrði mig til Keflavíkur. Þakklæti til allra þeirra sem unnu með mér í öll þessi ár sem hafa verið ótrúlega skemmtileg, kannski ekki alltaf jólin en ef ég ætti að byrja upp á nýtt þá myndi ég gera það sama. Takk Fimleikasamband fyrir ykkar störf – Áfram Ísland!
Árni Þór Árnason
Saga Árna í fimleikahreyfingunni hófst á svipaðan hátt og Birnu en þau hjónin voru viðriðin inn í fimleikadeild KR vegna fimleikaiðkunar barna þeirra og var hann m.a. formaður deildarinnar frá árinu 1989 til ársins 1992.
Hann hefur þó ekki aðeins verið viðriðin inn í fimleikahreyfinguna, hann hefur jafnframt verið nefndarmaður, formaður og í stjórn hinna ýmsu íþróttafélaga og íþróttasambanda ásamt því að sitja bæði í stjórn og varastjórn ÍSÍ á árunum 1988-1996.
Árið 1996 var fjárhagur FSÍ ekki á góðum stað og tók Árni því þá ákvörðun að segja sig úr aðalstjórn ÍSÍ til að rétta úr fjárhagi sambandsins. Það var einmitt það ár sem Árni tók við sem formaður stjórnar FSÍ og sinnti hann því starfi til ársins 2002.
Mesta afrekið er sennilega að ég er eini stjórnarmaður í ÍSÍ til dagsins í dag sem hef sagt mig úr stjórninni til að taka við gjaldþrota sérsambandi en FSÍ skuldaði yfir 9 milljónir króna árið 1996 og við skiluðum því í plús árið 2002 og ég lét þá af störfum.
Fimleikasambandið er ævinlega þakklátt Árna fyrir hans störf í þágu fimleika á Íslandi, við heyrðum í honum og spurðum hann hvers vegna hann ákvað að stíga inn í fimleikahreyfinguna.
Allt þetta brölt er allt Gullu (eiginkona Árna) að þakka, hún lét mig fara í stjórn fimleikadeildar KR. Ég fór bara út í þetta saklaus maðurinn og vissi ekki hvað öll stökkin hétu.
Árni, sem á langa sögu í heimi íþróttahreyfingarinnar, var að sjálfsögðu mjög ánægður með viðurkenninguna fyrir störf sín.
Ég var ógurlega þakklátur, mér fannst þetta bara mjög huggulegt af þeim, ég átti ekkert von á þessu.
Fimleikasambandið óskar þeim Árna og Birnu innilega til hamingju með viðurkenningarnar og óskar Birnu hamingjuóskir með 79 ára afmælið í gær og Árna og Gullu góðrar ferðar til Tenerife í dag. Fimleikasambandið væri ekki á þeim stað sem það er í dag nema fyrir frábær störf sjálfboðaliða líkt og Árna og Birnu.