Select Page

Á morgun, laugardaginn 27. febrúar, er loksins komið að fyrsta mótinu þar sem keppt verður í frjálsum æfingum í áhaldafimleikum karla og kvenna. Þetta er fyrsta mótið í efsta getuflokki síðan að keppt var á sama móti fyrir ári síðan. Bikarmótið í áhaldafimleikum fer fram í fimleikahúsi Gerplu, Versölum og hefst keppni kl. 15:00. Hægt er að kaupa miða á Tix.is sem og fylgjast með streymi í beinni útsendingu á heimasíðu Fimleikasambandsins.

Frjálsar æfingar kvenna

Bikarmót í frjálsum æfingum kvenna 2020

Að þessu sinni eru það fjögur lið sem keppa í frjálsum æfingum kvenna en það eru tvö lið frá Björk og eitt lið frá bæði FIMAK og Gerplu.

Liðið Björk A er skipað sömu stúlkum og fyrir ári síðan, en þær unnu afgerandi sigur á Bikarmótinu þá með 141.864 stig, það verður því spennandi að sjá hvort þær verji titilinn sinn í ár og hvort þær hækki stigin sem þær fengu í fyrra.

Lið Gerplu er nánast óbreytt frá því í fyrra, Sunna Kristín Ríkharðsdóttir verður þó ekki með í ár en í hennar stað kemur Dagný Björt Axelsdóttir. Liðið endaði í öðru sæti á Bikarmótinu í fyrra með 133.649 stig og verður því spennandi að sjá hvort þær veiti liði Bjarkanna harðari keppni á mótinu í ár.

FIMAK sendir frá sér lið á Bikarmót í frjálsum æfingum í fyrsta skipti í sögu félagsins og eru fjórar stúlkur í liðinu að stíga sín fyrstu skref í frjálsum æfingum.

Lið Gróttu var í þriðja sæti á Bikarmótinu í fyrra með 124.865 stig en því miður náði félagið ekki í lið í ár en sendir frá sér engu að síður tvo gesti til keppni.

Frjálsar æfingar karla

Bikarmót í frjálsum æfingum karla 2020

Í ár eru þrjú lið skráð til keppni í frjálsum æfingum karla, en það eru Fjölnir og tvö lið frá Gerplu.

Á Bikarmótinu í fyrra hafði lið Gerplu 1 betur og sigraði með 217.350 stig en lið Gerplu A veitti þeim þó harða samkeppni og enduðu í 2. sæti með 210.950 stig. Breytingar hafa átt sér stað í Gerplu liðunum, ýmsar tilfærslur á mönnum hafa verið á milli liða en hvernig svo sem liðin enda þá munu engu að síður nánast sömu keppendur vera í Gerpluliðunum og í fyrra og verður gaman að sjá þau keppa hvort við annað á ný.
Fjölnismenn kepptu í fyrsta skipti sem lið í frjálsum æfingum í fyrra og enduðu í 3. sæti. Það verður því spennandi að sjá hvað Fjölnismenn gera í ár.

2 gestir eru svo skráðir til keppni en það eru þeir Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni og Breki Snorrason úr Björk. Við höfum ekki séð Jón Sigurð keppa í langan tíma þar sem hann hefur átt við erfið meiðsli að stríða en hann hefur stigið út úr meiðslunum enn sterkari og með meiri erfiðleika í æfingum sínum. Það verður því mjög gaman að fylgjast með Jóni Sigurði framkvæma nýjar æfingar í fyrsta skipti á móti. Breki er þekktur fyrir þrefalt heljarstökk í afstökki á svifrá og bíðum við spennt eftir því hvað hann mun sýna okkur á morgun.

Aðeins tveir einstaklingar á mótinu hafa keppt á þessu Covid ári, en það eru þeir Valgarð Reinhardsson og Jónas Ingi Þórsson. Þeir kepptu á Evrópumóti í áhaldafimleikum sem fram fór í desember í Tyrklandi. Þeir voru með frábæran árangur á því móti og verður því gaman að fylgjast með hvernig sú reynsla mun nýtast þeim í liðakeppninni.

Miðasala og streymi

Við hvetjum ykkur til þess að kaupa ykkur miða á Tix.is eða fylgjast með streyminu okkar í beinni á Heimasíðu Fimleikasambandsins.

Fimleikasambandið vill nýta tækifærið og þakka þakka þeim fyrirtækjum sem aðstoðuðu við kostnað vegna streymis en það eru Fimleikar.is, 66°Norður, Verkfæralagerinn/Listverslun, Lemon og Lottó (Íslensk getspá).