Íþróttastarf verður óheimilt um allt land þar til 17. nóvember, samkvæmt nýjum hertum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld, 30. október.
Í Reglugerð heilbrigðisráðherra má lesa að íþróttir, þar með talið æfingar og keppnir, barna og fullorðinna hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.
Fjöldatakmarkanir fara úr 20 manns og niður í 10 manns. Einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2ja metra reglunni, fjöldatakmörkunum og grímuskyldu.
Reglurnar verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.
Fyrirhugaður er fundur með forystu iþróttahreyfingarinnar í dag kl 4 og verður félögunum sendur upplýsingapóstur í kjölfarið.
Í byrjun næstu viku mun Fimleikasambandið svo gefa út upplýsingar varðandi mótahald vetrarins.
Stöndum saman
Þessir skrítnu tímar hafa verið stór áskorun fyrir fimleikahreyfinguna, en við höfum staðið okkur vel og viljum halda því áfram. Hvetjum hvort annað, gerum heimaæfingar og finnum upp á nýjum og skemmtilegum leiðum til að æfa.
Jákvætt viðhorf kemur okkur langt!