Select Page

Nú í síðustu viku fór fram Special Olympics hátíð í Kolding, Danmörku. Hátíðin heitir „Special Olympics Idrætsfestival“ og er stærsta íþróttahátíðin í Danmörku fyrir þroskahamlað fólk. Ísland sendi frá sér keppendur í nokkrum íþróttagreinum, þar á meðal í nútímafimleikum.

Átta íslenskar stúlkur sem æfa nútímafimleika með Íþróttafélaginu Ösp héldu til Kolding í ár. Að sögn Ragnhildar Sigríðar Marteinsdóttur, þjálfara stúlknanna, gekk mótið mjög vel fyrir sig og skemmtu þær sér mjög vel.

Allar átta stúlkurnar komu sigursælar heim með medalíu um hálsinn. Allar stúlkurnar kepptu í sama level og var einungis keppt á tveim áhöldum, sippubandi og borða. Úrslitin voru eftirfarandi hjá íslensku keppendunum, en þær kepptu fyrst og var svo getuskipt í nokkra hópa.

Sippuband

  1. sæti – Luiza Kierzk
  2. sæti – Hekla Björk Hólmarsdóttir, Rakel Aradóttir og María Gísladóttir
  3. sæti – Linda Kristine Lanz
  4. sæti – Nina Margrét Ingimarsdóttir og Glódís Erla Ólafsdóttir
  5. sæti – Iðunn Árnadóttir

Borði

  1. sæti – Hekla Björk Hólmarsdóttir
  2. sæti – María Gísladóttir, Glódís Erla Ólafsdóttir og Rakel Aradóttir (Rakel keppti í level c og lenti einnig í 2. sæti í bolta án hjálpar)
  3. sæti – Nína Margrét Ingimarsdóttir og Linda Kristine Lanz
  4. sæti – Luiza Kierzk og Iðunn Árnadóttir

Eftir mótið sýndi hvert og eitt land atriði og sýndi íslenski hópurinn dansatriði með lagi úr The Greatest Showman. Daginn eftir sýninguna sýndi hópurinn dans á lokahátíðinni sem danska prinsessan Benedikte horfði á.

Stelpurnar enduðu svo ferðina sína í Legoland og nutu þær sín allar með adrenalínið í botni eftir miklar rússíbanaferðir.

Fimleikasambandið óskar stúlkunum til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim í framtíðinni.

#fimleikarfyriralla #specialolympics #aframisland