Select Page

Karlalandslið Íslands í áhaldafimleikum lauk keppni á Evrópumótinu í Munich í dag, en þetta er í fyrsta skipti í átta ár sem Ísland sendir lið til keppni í karlaflokki. Strákarnir voru í hluta eitt sem keppti fyrstur í morgun. Liðið fékk samtals 222.261 stig sem skilaði þeim 26. sæti, en 8 efstu liðin keppa til úrslita í liðakeppni á laugardaginn og 13 efstu liðin tryggðu sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Liverpool 29. október – 6. nóvember.

Ísland hóf keppni á gólfi og skiluðu allir liðsmenn góðum æfingum þar. Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfari, var ánægður með strákana að móti loknu.

„Ég er mjög ánægðu með strákana, þetta gekk vel í heildina en það voru stór mistök á tvíslánni sem kostuðu okkur töluvert af stigum og nokkur smá mistök hér og þar sem ég hefði viljað sleppa. Valgarð stóð sig frábærlega og ég er mjög stoltur af Atla sem var að keppa á sínu fyrsta Evrópumóti og kláraði sín áhöld mjög vel.“

Viktor Kristmannsson og Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfarar.

Valgarð varð efstur íslensku keppendanna með 77.098 stig, næstur var Jónas Ingi Þórisson með 72.865 stig og þar á eftir Martin Bjarni Guðmundsson með 69.098, þeir kepptu allir í fjölþraut. Atli Snær Valgeirsson keppti á gólfi, bogahesti, stökki og tvíslá og Jón Sigurður Gunnarsson keppti á hringjum.

Hér má sjá úrslit mótsins.

Við óskum strákunum og þjálfurum þeirra til hamingju með árangurinn!

Myndir frá keppni dagsins.

Á morgun er keppt í unglingaflokki og þar eigum við tvo keppendur þá Lúkas Ara Ragnarsson og Sigurð Ara Stefánsson. Streymt verður frá keppni morgundagsins og má fylgjast með á linknum hér fyrir neðan.

Keppni í unglingaflokki hér

Áfram Ísland!