Select Page

Stúlknalið Íslands í áhaldafimleikum hefur lokið keppni á Gymnova Cup.

Gymnova Cup var haldið um helgina í Keerbergen í Belgíu. Keppendur stúlknalandsliðsins voru þær Arna Brá Birgisdóttir, Dagný Björt Axelsdóttir, Margrét Júlía Jóhannsdóttir, Svanhildur Nielsen Hlynsdóttir og Viktoría Benónýsdóttir. Þjálfarar með þeim í för voru þau Jóhannes Níeles Sigurðsson og Svava Björg Örlygsdóttir.

Gymnova Cup var fyrsta alþjóðlega verkefnið hjá flestum stúlkunum, að Norðurlandamóti Unglinga undanskildu. Stúlkurnar stóðu sig með prýði í krefjandi og skemmtilegri keppni.

Margrét Júlía Jóhannsdóttir var með besta árangur keppanda Íslands í fjölþraut en hún endaði sjötta af 27 fjölþrautakeppendum í unglingaflokki, með 42,550 stig. Dagný Björt Axelsdóttir skoraði 42,283 stig og endaði ellefta, rétt á eftir Margréti. Þegar keppt er til úrslita á Gymnova Cup þá keppa unglingar og fullorðnir í sama flokki, það má því teljast mikið afrek að komast í úrslit. Ísland átti tvo keppendur í úrslitum en hún Arna Brá Birgisdóttir keppti á stökki og Margrét Júlía Jóhannsdóttir á jafnvægisslá. Úrslit má finna hér.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum og félögum innilega til hamingju með frábæran árangur á Gymnova Cup – Áfram Ísland.

Myndir frá mótinu má finna á myndasíðu Fimleikasambands Íslands eða með því að ýta hér.