Select Page

Nú um helgina fer fram Bikarmót í áhaldafimleikum í Versölum í umsjón Gerplu. Skipulag mótsins má finna hér.

Nýjar reglur varðandi áhorfendur á íþróttaviðburðum tóku gildi í gær og þurftu starfsmenn skrifstofu og Gerplu að bregðast hratt við og gera breytingar í samræmi við þær. Mikilvægt er að vanda vel til verka þegar verið er að létta á samkomutakmörkunum. Áhorfendur á mótsstað þurfa að bera grímu, þeir þurfa að passa upp á að ekki verði nein hópamyndun og fylgja þeim reglum sem settar eru á mótsstað í einu og öllu.

Miðasala

Selt verður inn á alla hluta mótsins og fer miðasalan fram hjá Tix.is. Samkvæmt reglum yfirvalda um sóttvarnir þurfum við að selja í merkt sæti, fylla þarf út persónuupplýsingar við kaup á miða vegna smitrakninga og tryggja þarf eins metra fjarlægð á milli hópa. Mikilvægt er því að hver og einn sitji í sínu sæti í stúkunni og færi sig ekki. Þegar keyptir eru nokkrir miðar saman á tix.is þá sitja þeir aðilar saman, það er því mikilvægt að þeir sem ætla að horfa á mótið saman passi upp á að kaupa miða í einni færslu.

Streymi

Streymt verður frá þeim hluta mótsins sem keppt verður í frjálsum æfingum og verða níu rásir, eitt áhald á hverri streymisrás. Sá hluti mótsins fer fram laugardaginn 27. febrúar og hefst keppni klukkan 15:00 og lýkur honum klukkan 17:30. Streymin munu birtast hér, ásamt dagskrá mótsins og hlekk á úrslitasíðu Fimleikasambandsins. Það ættu því allir að geta fylgst með okkar besta fimleikafólki keppa á bikarmótinu, hvort sem þeir verða á staðnum eða fylgjast með á netinu.

Við fögnum því að fá áhorfendur aftur í fimleikasalinn og við hlökkum til að eiga gott samstarf við alla sem að mótinu koma. Áfram íslenskir fimleikar!