Afrekssjóður FSÍ

Samþykkt fyrir Afrekssjóð Fimleikasambands Íslands

„Um Afrekssjóð Fimleikasamband Íslands (FSÍ), sem stofnaður var á fundi fjáröflunar- og markaðsnefndar FSÍ þann 7. janúar sl., gilda eftirfarandi samþykktir:

1. gr.
Sjóðurinn heitir Afrekssjóður Fimleikasambands Íslands. Heimili hans er Engjavegur 6, 104 Reykjavík. Sjóðurinn er hluti af B hluta efnahagsreiknings FSÍ. 

Ávöxtun sjóðsins og fjárvarsla er í höndum stjórnar FSÍ . Ávöxtun sjóðsins tekur mið af hæstu mögulegu ávöxtun hverju sinni en með minnstu mögulegu áhættustýringu. 

2. gr.
Úthlutun úr sjóðnum er ákveðin af stjórn FSÍ. Hámarksúthlutun  úr sjóðnum á hverju ári skal vera helmingur þess fjár sem safnaðist í sjóðinn árið á undan og ávöxtun hins helmingsins reikningsársins þar á undan, en má vera minni ef stjórn FSÍ telur slíkt skynsamlegt.

3. gr.
Markmið sjóðsins er að styrkja þá sem valdir eru til keppni af FSÍ í landslið Íslands í fimleikum með niðurgreiðslu á þátttökukostnaði við keppni og æfingar sem og allan útlagðan kostnað vegna íþróttarinnar.

Lengri tíma markmið sjóðsins er að styrkja alla fimleikahreyfinguna í heild sinni eins og innistæður sjóðsins gefa tilefni til og stjórn FSÍ telur rétt hverju sinni. 

Aðeins skal veita styrki úr sjóðnum til afreksfólks innan FSÍ vegna verkefna á vegum sambandsins.

4. gr.
Stjórn sjóðsins skipa fimm menn, fjórir tilnefndir af fjáröflunar- og markaðsnefnd FSÍ og einn tilnefndur af stjórn FSÍ. 

Sjóðurinn heyrir undir fjáröflunar- og markaðsnefnd FSÍ. Allar ákvarðanir sem lúta að öflun styrkja ber að samræma stefnu fjáröflunar- og markaðsnefndar FSÍ og stjórnar sambandsins. Hlutverk stjórnar sjóðsins er að afla fjármagns inn  í sjóðinn í samráði við fjáröflunar- og markaðsnefnd FSÍ.

5. gr.
Stjórn Afrekssjóðs FSÍ skal óska eftir tillögum um úthlutun vegna verkefna á vegum sambandsins frá sviðstjóra landsliða FSÍ/landsliðsþjálfurum, að minnsta kosti einu sinni á ári.  Stjórn FSÍ  úthlutar styrkveitingum úr sjóðnum eins oft og þurfa þykir. 

6. gr.
Tekjur sjóðsins geta verið árgjöld, styrkarfé eða aðrir fjármunir sem sjóðnum áskotnast hvort heldur er frá einstaklingum, stofnunum eða fyrirtækjum. 

7. gr.
Samþykkt þessi var staðfest á stjórnarfundi FSÍ þann 15 janúar 2013 og tekur gildi frá og með þeim tíma.“