Þriðjudagur, 21 Janúar 2020 13:17

Um 60 drengir mættu á opna æfingu fyrir stráka #fimleikarfyrirstráka

Fimleikasambandið hóf nýtt verkefni um síðustu helgi, þar sem boðið var upp á opna æfingu fyrir stráka á aldrinum 2005-2011. Verkefnið er hluti af hæfileikamótun sambandsins og sjá landsliðsþjálfararnir Magnús Óli Sigurðsson, Patrik Hellberg og Guðmundur Kári Þorgrímsson um framkvæmd þess. Markmið verkefnisins er að auka þátttöku drengja í íþróttinni og verða æfingar haldnar að meðaltali 1x í mánuði í mismunandi félögum og munu standa öllum drengjum á þessu aldursbili til boða, þeim að kostnaðarlausu. 

Fyrsta æfingin gekk vonum framar, 60 drengir mættu á æfinguna, þar sem þeir fengu að kynnast íþróttinni og prófa nýja hluti. Æfingin var að þessu sinni haldin í Íþróttafélagi Gerplu og landsliðsþjálfurum til aðstoðar mættu drengir og karlar úr landsliðum Íslands í hópfimleikum, sem bæði gerðu upphitun með drengjunum, stukku með þeim á áhöldunum, leiðbeindu þeim í nýjum fimleikaæfingum og aðstoðuðu við móttöku. Æfingunni lauk svo með glæsilegri sýningu iðkenda úr landsliðinu, þar sem þeir sýndu öll sín flottustu fimleikastökk við mikil fangaðarlæti áhorfenda. 

Landsliðsþjálfarar hafa búið til instagram síðu þar sem hægt er að fylgjast með verkefninu og sjá kynningarmyndbönd með drengjum og körlum úr landsliðinu. Síðuna má finna hér. Einnig er hægt að fylgjast með á facebook síðu verkefnisins. 

Næsta æfing verður haldin í febrúar og verður hún auglýst síðar. Öllum drengjum stendur æfingin til boða, hvort sem þeir æfa fimleika nú þegar eða hafa aldrei prófað íþróttina. Ekki þarf að skrá sig á æfinguna, heldur er nóg að mæta og taka þátt. Við hvetjum alla sem langar til að verða sterkir, hoppa á trampólín og læra ný trix að mæta og prófa þessa mögnuðu íþrótt með okkur. 

Við þökkum öllum iðkendum landsliða fyrir aðstoðina og félögum fyrir aðgang að húsnæði.

#fimleikarfs
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar