Föstudagur, 10 Janúar 2020 13:03

Uppskeruhátíð 2020

Hafsteinn nýjasti heiðursfélagi FSÍ Hafsteinn nýjasti heiðursfélagi FSÍ

Uppskeruhátíð Fimleikasambands Íslands fór fram í gær, fimmtudaginn 9. janúar 2020 í Laugardalshöll.

Sólveig Jónsdóttir framkvæmdastjóri tók á móti gestum, fór yfir verkefni síðasta árs og kynnti starfsmenn FSÍ sem hefur fjölgað þetta árið. Hún fjallað lítillega um EuroGym2020 sem haldið verður á Íslandi þetta árið og í framhaldinu fjallaði hún um mikilvægi sjálfboðaliða í hreyfingunni og veitti í kjölfarið eftirfarandi viðurkenningar.

 

Starfsmerki FSÍ 

Ragnheiður Hjaltalín 

Ragnheiður er yfirþjálfari ponsu- og pæjuhópa hjá Björkunum, sem eru yngstu iðkendurnir og hefur hún gegnt því starfi frá árinu 2012. Hún hefur starfað hjá félaginu frá 2010 bæði við þjálfun og á skrifstofu félagsins. Ragnheiður æfði sjálf fimleika hjá Björk í 10 ár og hefur setið í aðalstjórn, foreldraráði, tekið þjálfararéttindi sem og dæmt fyrir félagið.  

Ragnheiður unnið að því að samræma þjálfun á yngri stigum, skipuleggja þjálfun og þannig gert fleirum kleift að stunda fimleika í löngu sprungnu fimleikahúsi Bjarkanna.  

Ragnheiður Hjaltalín gat því miður ekki verið með okkur hér í dag en Sigurður Freyr Bjarnason mun taka við merkinu fyrir hennar hönd. 

(Sigurður Freyr Bjarnason, framkvæmdastjóri Bjarkanna tók á móti viðurkenningu hennar)

 

Guðrún Sveinbjörnsdóttir

Guðrún hefur starfað sem þjálfari í fimleikahreyfingunni í áraraðir hjá Íþróttafélaginu Gerplu, Fimleikadeild Fjölnis og þar á undan sem iðkandi. Gerpla var svo heppin að fá Guðrúnu aftur til liðs við sig fyrir ekki svo löngu eftir smá frí úr salnum. Guðrún er virkilega dýrmætur starfskraftur. Hún er þeim eiginleikum gædd að ná því allra besta úr sínum iðkendum með jákvæðni að leiðarljósi og miklu hrósi. Þær stúlkur sem hafa verið svo lánsamar að enda sem iðkendur hjá Guðrúnu hafa blómstrað í sínum fimleikum og náð virkilega góðum árangri. 

 

Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir 

Bergþóra ætti að vera okkur öllum kunn. En hún hefur sinnt nær öllum hlutverkum í hópfimleikum sem hægt er að sinnahún hefur verið iðkandi, þjálfari, dómari og var hún formaður tækninefndar í hópfimleikumum um margra ára skeið þar sem hún leiddi nefndina með glæsibrag.

Bergþóra var einnig framkvæmdarstjóri fimleikadeildar Selfoss og stýrði hún deildinni af röggsemi. Bergþóra er kraftmikilvinnusöm, nákvæm og þeim eiginleika gædd að geta séð stóru myndina, með velferð iðkandans að leiðarljósi. Fimleikasambandið er stolt af framlagi Bergþóru til íslenskra fimleika og vonum að hún dafni í hreyfingunni sem lengst. 

 

Fjóla Valdís Árnadóttir og Sólborg Sumarrós Sigurðardóttir

Fjóla Valdís hefur verið í stjórn foreldrafélags Gerplu síðustu ár en lét af störfum þar í haust eftir mjög kraftmikið og óeigingjarnt starf. Hún starfaði einnig í Máttarstólpum samhliða störfum í  foreldrafélaginu og er enn á fullu þar.  Máttarstólpar er hagsmunafélag iðkenda í meistaraflokkum félagsins. Fjóla er kraftmikil og lætur til sín taka í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er ávalt liðtæk í hvaða verkefni sem hún er beðin um að sinna fyrir félagið og er mætt til að aðstoða sama hversu stór verkefnin eru. Fjóla Valdís er einstök og vel að þessari viðurkenningu komin og vonumst við til margra fleiri ára með Fjólu innan fimleikahreyfingarinnar.  

Sólborg Sumarrós eða Rósa eins og við þekkjum hana er sjálfboðaliði í Gerplu og hefur látið til sín taka síðustu ár. Hún hefur setið í stjórn foreldrafélags Gerplu en hefur einnig verið einn af forsprökkum Máttarstólpa Gerplu og lætur til sín taka þar sem og annars staðar í þeim verkefnum sem til falla. Nýjasta vekefnið hjá Rósu er að sitja í undirbúningsnefnd Kópavogsblótsins og er Gerpla lánsöm að hafa hana þar.  Rósa er drífandi og dugleg að fá fólk með sér í verkefnin og lætur til sín taka svo eftir er tekið. Rósa er vel að þessari viðurkenningu komin og fimleikahreyfingin er einstaklega heppin að hafa hana innan sinna raða. 

 

 

 

Leiðtogi ársins

Una Brá Jónasdóttir

Ungegnir stöðu yfirþjálfar í hópfimleikum hjá Stjörnunni. Una Brá er gædd þeim dásamlega eiginlega að vera jákvæð og glaðleg sem hún hefur náð að smita yfir á aðra þjálfara og iðkendur í deildinni. Una Brá er mettnaðargjörn og vill sjá árangur en fyrst og fremst vill hún að öllum líði vel. Hún er fljót að viðurkenna galla sína og er tilbúin að bæta sig og læra. Þessari sýn hefur hún líka náð að smita yfir á aðra þjálfara og iðkendur. Herferð hennar inn í salnum „hakan upp“ sem hún og Andrea Sif Pétursdóttir sköpuðu snýst um að vera stoltur Stjörnu iðkandi og bera höfuðið hátt sama hvað á gengur. 

 

Þjálfari ársins

Sesselja Jarvela

Sesselja hefur áratuga reynslu í þjálfun. Hún hefur sinnt þjálfun í almennum fimleikum, hópfimleikum og áhaldafimleikum. Í hópfimleikum og áhaldafimleikum hefur hún þjálfað stúlkur á hæsta getustig. Árið 2019 átti hún iðkendur í kvenna og unglingalandsliði í áhaldafimleikum. Sesselja hefur verið ötull talsmaður eldri stúlkna sem vilja æfa og keppa í áhaldafimleikum án þess að hafa það endilega sem markmið að ná í landslið. En hún er ekki bara talsmaður þeirra, heldur lætur hún verkin tala og hélt á síðasta ári mótið Grótta open sem var sérsniðið til að mæta þeim hópi. Auk þess að sinna þjálfun er Sesselja einn af frumkvöðlunum við gerð og framþróun fræðslukerfis Fimleikasambandsins. 

Fyrst og fremst er Sesselja með ástríðu fyrir fimleikum, að allir sem það kjósa geti tilheyrt fimleikasamfélginu og að hverjum iðkanda sé mætt á hans eigin foresemdum. Það er fólk eins og hún sem eru máttarstólpar félaganna í landinu og það væri óskandi að allir hefðu eina Sesselju innan sinna raða því þá væri þörfum allra sannarlega mætt. 

Í framhaldinu fór Sesselja með afar skemmtilega ræðu sem hefur án efa veitt þjálfurum í salnum mikla hvatningu.

 

Gullmerki

Auður Vala Gunnarsdóttir

Auður Vala var ein af fyrstu iðkendum fimleikadeildar Hattar á Egilsstöðum þegar deildin byrjaði árið 1984 en deildin var stofnuð formlega 1986. Auður æfði fyrstu árin undir stjórn Hólmfríðar Jóhannsdóttur sem stofnaði deildina og var henni oft innan handar með þjálfun en tók formlega að sér þjálfun árið 1989 og þjálfaði þá til ársins 1991.  

Árið 2000 flytur Auður aftur heim til Egilsstaða eftir nám og ákvað þá að taka að sér starf yfirþjálfara fimleikadeildar Hattar. Síðan þá hefur Auður starfað sem yfirþjálfari og séð um að staðið sé faglega að starfi deildarinnar og náð glæsilegum árangri. Hún hefur verið sannur leiðtogi á þessu sviði en á síðasta ári lét hún af starfi yfirþjálfara hjá deildinni eftir 18 ára samfleitt starf. Telja má líklegt að fáir eigi sér jafn langan feril sem yfirþjálfari innan fimleika á Íslandi.  

Auður hefur til margra ára séð um kennslu fyrir FSÍ í menntun þjálfara í fimleikum á austur- og norðulandi og hefur meðal annars komið að skrifum á kennslubók. Hún hefur einnig verið ein af þeim sem barist hefur fyrir því að aðstaða til fimleikaiðkunar sé bætt á Fljótlsdalshéraði og er erfiði þeirrar baráttu að líta dagsins ljós þegar nýtt hús verður tekið í notkun um mitt ár 2020. En þar verður allt til alls sem þarf til fimleikaiðkunar. 

Auður Vala hefur einnig komið að vinnu við framkvæmd landsmóta bæði sem afþreyingarstjóri og sérgreinastjóri í fimleikum. Auður hefur setið í fræðslunefnd Fimleikasambands Íslands og í dag situr hún í stjórn ÚÍA sem fulltúri Íþróttafélagsins Hattar. 

Auður hefur verið ötull talsmaður fimleika á landsbyggðinni og barist fyrir virkri þátttöku félaga úti á landi. Við erum þakklát fyrir allt það góða starf sem Auður hefur unnið fimleikum á Íslandi til heilla. 

Auður Vala komst því miður ekki til okkar í dag. En vinkona hennar Adda Birna Hjálmarsdóttir mun taka við viðurkenninunni fyrir hennar hönd.

  

 

Heiðursfélagi FSÍ

Hafsteinn Þórðarson

Hafsteinn hefur starfað nær sleitulaust fyrir Fimleikafélagið Björk og fimleikahreyfinguna frá árinu 1993 en þá tók hann við sem formaður félagsins. Hann gengdi því embætti í 3 ár en tók þá sæti í stjórn ÍBH  og sat þar í 16 ár, síðustu árin sem varaformaður. En ekki nóg með að  vera í stjórn ÍBH og formaður eða stjórnarmaður hjá Björk var Hafsteinn kosinn í stjórn FSÍ árið 1996 og sinnti þar stöðu gjaldkera þar sem hann vann kraftaverkastarf fyrir sambandið okkar. Fróðir menn segja mér að við værum bara alls ekkert á þeim stað sem við erum í dag ef ekki væri fyrir Hafstein. 

Hafsteinn hefur haft stefnumótandi áhrif, hann tölvuvæðir, nútímavæðir og hefur komið bókhaldi bæði Bjarkanna og FSÍ í viðurkennt form. Hann barðist fyrir því að Fimleikafélagið Björk fengi sambærilega aðstöðu og önnur félög í bæjarfélaginu og þar með stuðlaði hann að því að Bjarkarhúsið var reist við Haukahraun. Fyrsta sinnar tegundar. 

Hafsteinn hefur alla tíð talað mikið um mikilvægi þess að hreyfingin sæki sér menntun og reynslu út fyrir landsteinana og með stuðningi hans hafa þjálfarar sem og iðkendur sótt sér þekkingu og keppnisreynslu erlendis. 

Eftir hrunið 2008 tók Hafsteinn að sér bókhaldsverkefni fyrir félagið þar sem félagið hafði ekki efni á að ráða starfskraft í það og sinnti starfi fjármálastjóra og bókara sem sjálfboðaliði.  

Hafsteinn stuðlaði að því að stofnuð var félagadeild í kringum 65 ára afmæli Fimleikafélagsins Björk sem hefur það að markmiði að fegra umhverfi félagsins sem og að styðja við starfssemi þess.  

Hafsteinn hefur því haft leiðandi áhrif á að Fimleikafélagið Björk er þar sem það er í dag og hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. 

Eftir farsæla stjórnarsetu hjá Fimleikasambandinu skilaði Hafsteinn af sér góðu búi en hefur þó haldið áfram að vinna að góðum fjárhag sambandsins sem skoðunarmaður reikninga. 

Fimleikasambandið kann honum bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu fimleika á Íslandi. Þú átt svo stóran þátt í því að fimleikar dafna í samfélaginu okkar í dag. 

Hafsteinn vissi ekki þegar hann mætti á staðinn hvaða viðurkenningu hann væri að fá og því kom þetta honum mjög skemmtilega á óvart. Það skal engan undra að allir gestir í salnum stóðu á fætur og fögnuðu nýjasta Heiðursfélaga FSÍ. Hafsteinn fór, líkt og Sesselja, með mjög skemmtilega ræðu um það hvernig hann endaði inn í fimleikahreyfingunni með akkurat engan fimleikabakgrunn eða tengsl við fimleika.

 

   

  

 

Erlend verðlaun  

Á árinu 2019 var nóg að gera hjá afreksfólkinu okkar og náðist góður árangur. Í ár áttum við keppendur á fyrsta Heimsmeistaramóti unglinga í áhaldafimleikum, en þar kepptu Jónas Ingi Þórirsson og Laufey Birna Jóhannsdóttir. Einnig náðum við góðum árangri á Norður Evrópumóti í áhaldafimleikum sem haldið var hér á landi og Norðurlandamóti í hópfimleikum. Í ár fengu tveir keppendur boð á Evrópuleikana sem fram fór í Minsk í Hvíta Rússlandi, en það voru Agnes Suto-Tuuha og Valgarð Reinhardsson. 

Á árinu 2019 unnum við til verðlauna í eftirfarandi erlendum verkefnum: 

Norðurlandamót unglinga og youth karla

Í unglingaflokki: 

  • Jónas Ingi Þórisson – 2. sæti á stökki
  • Martin Bjarni Guðmundsson – 2. sæti á stökki
  • Dagur Kári Ólafsson – 2. sæti á bogahesti 

 

Í youth flokki: 

  • Arnar Arason – 3. sæti á tvíslá 

(Á myndina vantar Arnar Arason)

 

Norður Evrópumót

  • Irina Sazanova – 2. sæti á gólfi og tvíslá 
  • Jónas Ingi Þórisson – 2. sæti á stökki og gólfi 
  • Valgarð Reinhardsson – 3. sæti svifrá

 

 

Norðurlandamót í hópfimleikum 

Kvennalið Stjörnunnar – 2. sæti  

 

Þjálfurum erlendra verkefna á árinu voru veittar rósir sem og öðrum keppendum erlendra verkefna.

 

Afrek ársins

Valgarð Reinhardsson

Afrek ársins 2019 er þegar Valgarð komst í úrslit á gólfi á Heimsbikarmótinu í Koper. Einnig varð Valgarð örstutt frá því að komast í úrslit á tvíslá á sama móti. Í úrslitunum hækkaði hann sig um tvö sæti frá undankeppninni. 

 

Fimleikafólk ársins

 

Lið ársins

Kvennalið Stjörnunnar

Kvennalið Stjörnunnar varð Íslands- og bikarmeistari árið 2019 og varði þar með titilinn frá ári áður.

Liðið varð í öðru sæti á Norðurlandamótinu sem fram fór í nóvember 2019 og voru hársbreidd frá því að vinna til gullverðlauna. Á því móti fékk liðið hæstu einkunn í gólfæfingum eða 21.575 stig sem er hæsta einkunn sem gefin hefur verið fyrir dans í hópfimleikum hingað til.

 

Fimleikamaður ársins

Valgarð Reinhardsson

Valgarð varð Íslandsmeistari í fjölþraut auk þess sem að hann vann sigur á fjórum áhöldum af sex í keppni á einstökum áhöldum. Hann varð einnig bikarmeistari með liði sínu Gerplu.

Valgarð stóð sig vel í alþjóðlegum verkefnum og vann hann meðal annars brons verðlaun á svifrá á Norður Evrópumóti.  Einnig komst Valgarð í úrslit í gólfæfingum á heimsbikarmóti í Koper, en hann var einnig varamaður í úrslit á tvíslá á sama móti.

Önnur verkefni sem Valgarð tók meðal annars þátt í voru Evrópuleikarnir í Minsk og heimsbikarmót í Melbourne, Ástralíu.

 

Fimleikakona ársins

Agnes Suto-Tuuha

Agnes er búin að vera í fremstu röð á Íslandi í áraraðir. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut árið 2019 og í verðlaunasætum á öllum áhöldum í keppni á einstökum áhöldum. Hún varð bikarmeistari 2019 með liði Gerplu og sigraði GK-meistaramót.

Agnes tók þátt í öllum landsliðsverkefnum vorannar, sem byrjaði með Evrópumótinu í Póllandi. Þaðan lá leiðin á Flanders International Team Challange og að lokum var hún valin til þáttöku á Evrópuleikunum í Minsk síðasta sumar.

Agnes lauk svo keppnisárinu með því að taka þátt í Norðurlandamótinu í TeamGym nú í haust.

 

Við þökkum öllum fyrir komuna og óskum ykkur áframhaldandi velgengni á nýju ári.