Sunnudagur, 22 September 2019 16:20

Verðlaun á Norður Evrópumóti hjá Irinu, Valgarði og Jónasi Inga

Seinni dagur Norður Evrópumótisins í áhaldafimleikum karla og kvenna fór fram í Gerplu í Kópavogi í dag. Keppt var til úrslita á áhöldum, en einungis átta bestu á hverju áhaldi úr fjölþraut, fengu keppnisrétt í dag. Keppendur frá löndum tóku þátt, frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Skotlandi og Wales. Íslensku keppendurnir náðu í þrjú silfur og tvö brons.

Mótið hófst með keppni á gólfi í karlaflokki þar sem Jónas Ingi Þórisson keppti til úrslita. Jónas gerði sér lítið fyrir og framkvæmdi gríðarlega flottar gólfæfingar sem tryggðu honum annað sætið, sem hann deildi með Kelvin Cham frá Skotlandi. Jónas fékk fyrir æfingar sínar einkunnina 13.200. Sigurvegari á gólfi var Sofus Heggemsnes frá Noregiu, með einkunnina 13.850. Þess má geta að einungis er keppt í fullorðinsflokki á mótinu, en Jónas er ennþá í unglingaflokki og því gríðarlega efnilegur ungur drengur með bjarta framtíð í greininni.

Á stökki keppti Irina Sazinova til úrslita þar sem hún framkvæmdi tvö stökk, yurchenko með heilli skrúfu og tsukahara heljarstökk vinklaðri líkamsstöðu og fékk fyrir það 12.675. Bæði stökkin gengu svakalega vel, framkvæmdin var góð og lendingin upp á 10. Hana vantar þó hærri erfiðleika í seinna stökkinu til að keppast um fyrstu þrjú sætin og varð fjórða sætið því raunin. Sigurvegari á stökki var Emily Thomas frá Wales með 13.435 stig.

Sérfræðingur Íslands á bogahesti, Arnþór Daði Jónasson, keppti að sjálfsögðu í úrslitum, en hann framkvæmir erfiðustu æfingar á bogahesti af íslensku keppendunum. Smá hnökrar voru í æfingum hans, en hann hlaut 12.150 stig fyrir æfingar sínar. Valgarð Reinhardsson keppti einnig í úrslitum á bogahesti og framkvæmdi æfingar sínar vel og örugglega og hlaut 6. sætið með einkunnina 12.200 stig. Sigurvegari á bogahesti var Brinn Bevan frá Wales.

Á tvíslá keppti Irina Sazonova og líkt og á stökkinu framkvæmdi hún æfingar sínar vel og örugglega og tryggði sér 2. sætið einungis 0.2 stigum á eftir Emily Thomas frá Wales sem hlaut 12.650 stig. Skemmtilegt er að segja frá því að Irina er ný komin úr barnseignarfríi, en hún eignaðist barn fyrir rúmum sjö mánuðum síðan.

Jónas Ingi og Valgarð kepptu í hringjum. Valgarð var hársbreydd frá verðlaunasæti með 12.800 stig en fyrsta sætið tók Josh Cook frá Wales með 13.900 stig.

Engin íslendingur komst í úrslit á slá, en þar fór með fyrsta sætið Jea Maracha frá Wales með 12.800 stig. 

Á stökki í karlaflokki fékk sigraði Jónas Ingi sín 2. verðlaun og endaði í 3. sæti með 13.475 einungis 0.15 stigum á eftir Emil Barber frá Wales, sem hlaut 13.625 stig. Glæsilegur árangur hjá þessum unga dreng. 

Á gólfi voru í úrslitum Irina Sazinova og Margrét Lea Kristinsdóttir. Irina fékk sín önnur verðlaun á gólfi, en hún framkvæmdi allar æfingar sína næstum frádráttarlaust og tryggði sér 2. sætið með einkunnina 12.350, einungis 0.2 stigum á eftir Emily Thomas frá Wales. Gyðjan á gólfinu, Margrét Lea Kristinsdóttir framkvæmdi æfingar sínar líka gríðarlega vel og varð í 4. sæti með 12.050 stig. 

Valgarð keppti á tvíslá karla en æfingar hans gengu ekki sem skildi og fall í afstökki gaf honum 5. sætið að þessu sinni með einkunnina 12.300. 

Valgarð endaði þó mótið með stæl þegar hann tryggði sér 3. sætið með 12.950 stig, eftir stórglæsilegar æfingar á svifránni. Það var Joe Cernlyn-Jones frá Wales sem hlaut gullverðlaunin með 13.250 stig. 

Við óskum öllum keppendum innilega til hamingju með mótið en það er mikilvægur undirbúningur fyrir Heimsmeistaramótið í Stuttgart sem fram fer í 4.-13. október. Íslensku keppendurnir leggja af stað á mótið eftir rúma viku og er heimsmeistaramótið síðasta tækifæri til þess að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikana.

Við þökkum Gerplu fyrir samstarfið og keppendum fyrir komuna.  

Hægt er að sjá úrslit frá helginni hér. 

Áfram Ísland!
#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar