Print this page
Laugardagur, 21 September 2019 21:14

Norður Evrópumót á Íslandi

Í dag fór fram fyrri dagur Norður Evrópumótsins í áhaldafimleikum karla og kvenna, sem haldið er í Versölum, húsi Gerplu. Alls voru keppendur mættir frá sjö löndum, Íslandi, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Skotlandi og Wales. Keppt var í liðakeppni og fjölþraut í dag, en á morgun verður svo keppt til úrslita á einstökum áhöldum.

Ísland mætti til leiks með lið í bæði kvenna- og karlaflokki. Íslensku liðin skipuðu hjá körlunum, Arnþór Daði Jónasson, Atli Snær Valgeirsson, Guðjón Bjarki Hildarson, Jónas Ingi Þórisson, Martin Bjarni Guðmundsson og Vargarð Reinhardsson. Hjá konunum voru það Birta Björg Alexandersdóttir, Irina Sazonova, Margrét Lea Kristinsdóttir, Nanna Guðmundsdóttir og Sonja Margrét Ólafsdóttir sem mynduðu íslenska landsliðið.  

Þau Irina Sazonova og Valgarð Reinhardsson gerðu nokkuð gott mót og höfnuðu þau bæði í 5. sæti í fjölþraut, Irina með 47.85 stig og Valgarð með 77.2 stig. Bæði íslensku liðin urðu fyrir mikilli blóðtöku á miðju móti þegar þau Martin Bjarni og Sonja Margrét meiddust bæði og þurftu að hætta keppni. Niðurstaðan varð 4. sæti hjá báðum liðum, strákarnir með 221.15 stig og stelpurnar með 138.65 stig.

Í liðakeppni hjá körlum var það lið Noregs sem sigraði með 239.25 stig, Wales var í öðru sæti með 234.1 stig og Skotar í því þriðja með 228.1 stig.

Í fjölþraut sigraði Sofus Heggemsnes frá Noregi með 80.95 stig, Joe Cemlyn-Jones frá Wales var í öðru sæti með 79.9 stig og í þriðja Norðmaðurinn Stian Skjerahaug með 79.55 stig.

Hjá konunum sigraði Wales liðakeppnina með 151.5 stig, norsku konurnar vor í öðru sæti með 141.75 stig og í þriðja sæti hafnaði lið Finnlands með 139.85 stig.

Í fjölþraut hjá konunum sigraði Emily Thomas frá Wales með 52.15 stig, í öðru sæti var Poppy Stickler, einnig frá Wales, með 48.95 stig og í þriðja sæti var hin efnilega Camille Rasmussen frá Danmörku með 48.6 stig.

Keppnin er alls ekki búin og verður keppt til úrslita á einstökum áhöldum á morgun og eiga Íslendingar þar nokkra fulltrúa.

Irina Sazonova kepptir til úrslita á öllum áhöldum nema slá, en þar er hún Nanna Guðmundsdóttir varamaður og er Margrét Lea Kristinsdóttir auk Irinu í úrslitum á gólfi.

Valgarð Reinhardsson er í úrslitum á öllum þeim áhöldum sem hann gat komist í úrslit á, Valgarð gerði ekki tvö stökk, en það er krafa til þess að komast í úrslit á stökki.

Jónas Ingi Þórisson, sem ennþá keppir í unglingaflokki, gerði sér lítið fyrir og komst í úrslit á gólfi, hringjum, stökki og svifrá og er varamaður inn á tvíslá.

Arnþór Daði Jónasson komst í úrslit á bogahesti og er Guðjón Bjarki Hildarson varamaður inn í úrslit á stökki.

Í dag var setið í hverju sæti í Versölum og hvetjum við fólk til að mæta á morgun, fylla húsið og hvetja okkar keppendur til dáða.

Við minnum á að hægt er að fylgjast með úrslitum mótsins í beinni á https://live.sporteventsystems.se/Score/WebScore/1747 og þar er einnig hægt að sjá öll úrslit dagsins í dag.

 

Áfram Ísland!
#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar