Mánudagur, 02 September 2019 11:37

Vel heppnaður Fræðsludagur

Fræðsludagur Fimleikasambandsins fór fram laugardaginn 31.ágúst. Dagurinn var vel sóttur af þjálfurum og starfsfólki félaganna, en um 140 manns mættu í Kórinn eða fylgdust með á netinu. Við fengum til okkar þrjá frábæra fyrirlesara en fyrst á dagskránni var Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við mentavísindasvið HÍ en hún fjallaði um Jákvæð samskipti við börn. Næstar voru Lára Ósk Eggertsdóttir Classen, sérnámslæknir í heimilislækningum, Ragna Margrét Brynjarsdóttir og María Björnsdóttir. Lára Ósk fjallaði um Höfuðhögg í íþróttum og þær Ragna Margrét og María sögðu sína sögu, en báðar hafa þær fengið höfuðhögg í sinni íþrótt. Síðasti fyrirlesturinn var frá Vöku Rögnvaldsdóttur en hún talaði um Svefn og fimleika. Við þökkum öllum þessum frábæru konum fyrir komuna.

Að loknum fyrirlestrum var hópavinna þar sem unnið var í tveimur hópum. Rædd voru landsliðsmál í áhaldafimleikum þar sem Sæunn Viggósdóttir, afreksstjóri áhaldafimleika, Hildur Ketilsdóttir og Þorbjörg Gísladóttir, landsliðsþjálfarar kvenna stjórnuðu umræðum. Hópfimleikarnir fóru yfir nýjar reglur í Stökkfimi, kröfur móta fyrir veturinn og landsliðverkefni 2020, en þau Ragnar Magnús Þorsteinsson, Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir og Kristinn Þór Guðlaugsson skiptu með sér verkum.

Fimleikasambandið þakkar öllum fyrir þátttökuna og óskar ykkur góðs gengis í vetur.