Miðvikudagur, 10 Apríl 2019 15:04

Strákarnir hafa lokið keppni á EM - Myndband

Valgarð Reinhardsson og Eyþór Örn Baldursson kepptu í undanúrslitum á Evrópumótinu í Póllandi í dag. Núverandi Íslandsmeistari, Valgarð Reinhardsson, átti mjög góðan dag og fékk meðal annars fyrir stökkin sín 13.983 stig. Hann var lengi vel í 7. sæti á stökki og var spennan í íslenska fylgdarliðinu mikil, en alls komast 8 efstu á hverju áhaldi í úrslit á einstökum áhöldum. Gæðin á mótinu eru gríðarleg og bestu fimleikamenn í heimi hér saman komnir. Úrslit urðu ekki raunin að þessu sinni, en Valgarð var í 13. sæti eftir annan hluta mótsins. Valgarð varð í fyrra fyrsti Íslendingur til að komast í úrslit á stökki á Evrópumóti, þegar hann keppti með sömu stökk og í dag, en sjá má stökkin hans frá Evrópumótinu í fyrra hér. Alls fékk Valgarð 76.397 stig fyrir æfingar sínar í dag, en mótið er stór hluti af undirbúningsferli fyrir Heimsmeistaramótið í Stuttgart sem fram fer í byrjun október á þessu ári. Á mótinu verður hægt að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikana 2020 og því mikið í húfi.

Eyþór Örn sem er þekktur fyrir að vera mjög öruggur í sínum æfingum og mikill keppnismaður, átti ekki sinn besta dag. Eyþór var með fall á fjórum áhöldum, en hann gerði mjög góðar æfingar á svifrá og bogahesti.

Hér má sjá æfingar strákanna frá deginum: 

Valgarð Reinhardsson
Eyþór Örn Baldursson

Stelpurnar keppa í undanúrslitum á morgun, en Emilía Björt Sigurjónsdóttir og Vigdís Pálmadóttir keppa í öðrum hluta sem hefst kl. 11:30 á íslenskum tíma og lýkur um 13:30. Núverandi Íslandsmeistari Agnes Suto-Tuuha og Thelma Aðalsteinsdóttir keppa í fjórða hluta sem hefst kl. 16:30-18:30 á íslenskum tíma.

Hægt er að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu hér.

Einnig er hægt að fylgjast með einkunnargjöfinni hér. 

Áfram Ísland!
#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar