Laugardagur, 02 Júní 2018 12:58

Valgarð í topp 20 á öllum áhöldum

Karlalandslið Íslands hefur lokið keppni á heimsbikarmótinu í Koper í Slóveníu. Á fimmtudag keppti Eyþór Örn Baldursson á gólfi og hringjum. Hann átti ágætis dag en vantaði smá upp á sitt besta og hafnaði í 25. á gólfi og 28. sæti á hringjum.

Arnþór Ingi Jónasson, sem keppti á sínu fyrsta heimsbikarmóti, átti erfiðan dag á bogahestinum og féll tvisvar og hafnaði í 38. sæti. Hann var þó ekki einn um að eiga í vandræðum á hestinum en stór hluti keppenda lauk keppni með fall.

Í gær föstudag, kepptu Eyþór og Valgarð Reinhardsson á stökki og Valgarð til biðbótar á svifrá og tvíslá. Valgarð var að koma inn með nýjar æfingar og því spennandi að sjá hvernig hann kæmi út úr mótinu. Eyþór byrjaði á stökki og gerði vel, hafnaði í 19 sæti og Valgarð sömuleiðis en hann hafnaði í því 15. Valgarð mætti því vel stemmdur á tvíslánna með breytta seríu og gekk hún vonum framar. Líkt og Valgarð sagði sjálfur, "þetta er besta tvíslársería lífs míns". Niðurstaðan var 15. sæti og svo að lokum það 17. á svifrá en þar virtist sem aðeins of mikil orka hafi farið í tvíslánna, þó hann hafi ekki fengið fall þá komu mistök í seinni hluta seríunnar sem kostuðu þónokkurn frádrátt.

Á heildina litið flott mót hjá strákunum sem skilar sér klárlega í reynslubankann og frábært hjá Valgarð að vera á topp 20 á öllum áhöldum.

Mynd frá Fimleikasamband Íslands.