Fimmtudagur, 17 Maí 2018 20:14

Heimsmetið slegið með glæsibrag

Fimleikasamband Íslands efndi til afmælisveislu í dag í tilefni af 50 ára afmæli sambandsins og bauð fimleikafólki og öðrum áhugasömum í Laugardalshöll í afmælisköku og tilraun við heimsmet.

Til stóð að slá heimsmet í handstöðu eða "Most people doing a handstand" eins og það kallast hjá Heimsmetabók Guinness. Fyrra metið var 399 manns og var stefnan sett á að slá heimsmetið með stæl og stefna á 500 mann í handstöðu.  Fimleikasendi boð á fimleikafélögin í landinu og bauð þeim í veisluna og undirtektirnar voru eins og fimleikafólki sæmir, alveg til fyrirmyndar.

Þegar afmælið nálgaðist fengum við fréttir af skipulögðum rútuferðum og niðurfellingu æfinga og von Fimleikasambandsins um að markmiðið næðist jókst.

Þegar upp var staðið, var ljóst að markmiðið hafði náðst og spurningin einungis hversu langt fram úr fyrra meti fimleikahreyfingin fór. Það voru spenntir umsjónaraðilar sem fylgdust með endurskoðendunum, obinberum vitnum, telja saman fjöldann skv. þátttökuskýrslum. Lokatölur, 607 einstaklingar í handstöðu á sama tíma og fyrra met bætt um 52%.

Næstu skref eru svo að skila öllum sönnunargögnum inn til Heimsmetabókar Guinness og bíða þess að þeir staðfesti heimsmetið. 

Allir sem voru í Laugardalshöll, hvort sem það voru starfsmenn, áhorfendur eða þátttakendur í heimsmetinu, vita hinsvegar hvað gerðist hér í dag.

Einnig má ekki gleyma fimleikafélögunum úti á landi en þau tóku þátt í hátíðinni með okkur og héldu sín eigin handstöðupartý, með köku og fimleikagleði.

Til hamingju íslenskt fimleikafólk, þetta var hinn fullkomni afmælisdagur fyrir fimleika #fimleikarfyriralla.