Alþjóða fimleikasambandið (FIG) hefur birt tilnefningar á alþjóðlegum dómurum fyrir Ólympíuleika ungmenna sem fram fara í Buenos Aires í Argentínu næsta haust.
Sandra Matthíasdóttir og Daði Snær Pálsson voru tilnefnd í dómarahóp mótsins en mótið er eitt það allra sterkasta sem í boði er fyrir ungt fimleikafólk og það þykir mikill heiður að vera valinn í þetta verkefni.
Alþjóða fimleikasambandið er sífellt að reyna að auka gagnsæi í dómaravali og voru dómarar á þetta mót valdir út frá frammistöðu þeirra á alþjóðlegu dómaraprófunum sem fram fóru á síðasta ári.
Það er því frábær viðurkenning fyrir Söndru og Daða og góður vitnisburður um frammistöðu þeirra á dómaraprófinu.
Fimleikasambandið óskar þeim innilega til hamingju með tilnefninguna.