Fimmtudagur, 01 Mars 2018 11:01

Hugað að þeim sem eru að vinna sig upp úr meiðslum

Fimleikasambandið stóð fyrir fræðslukvöldi fyrir úrvalshópa í áhaldafimleikum karla, kvenna og í hópfimleikum í gærkvöldi. Þrátt fyrir mikla og reglulega umfjöllun um forvarnir má ekki gleyma því að flestir íþróttamenn glíma við meiðsli einhvertíma á sínum ferli.

Dagskráin var því sérstaklega miðuð að því hvernig íþróttamenn vinna sig úr meiðslum, bæði andlega og líkamlega. Margrét Lára Viðarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu og mastersnemi í klínískri sálfræði, flutti erindi um hugarfar og áskoranir íþróttamanna sem eru að vinna sig upp úr meiðslum. Erindið vakti mikla ánægju og kítlaði Margrét Lára hláturtaugar fólks á milli þess sem hún fór inná alvarlegri málefni og leiðbeindi íþróttafólkinu hvernig þau gætu brugðist við mótlæti. 

Sjúkraþjálfararnir Sandra Dögg Árnadóttir, fyrrum landsliðsþjálfari í áhaldafimleikum og Þórdís Ólafsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum leiðbeindu iðkendum um hvernig er best að vinna sig upp úr meiðslum. Erindið var mjög fræðandi og fengu iðkendur og þjálfarar bæði leiðbeiningar um hvernig á að bregðast við bráða- og langvarandi meiðslum. 

 
Margrét Lára Viðarsdóttir,                                                     Sandra Dögg Árnadóttir, sjúkraþjálfari
landsliðskona í fótbolta                                                        Þórdís Ólafsdóttir, sjúkraþjálfari

Haldin verða tvö fræðslukvöld fyrir alla þá sem eiga sæti í úrvalshópum bæði í áhaldafimleikum og hópfimleikum. Seinna fræðslukvöldið verður haldið 11. mars næstkomandi og verður þá boðið upp á fyrirlestra frá Agnesi Þóru Árnadóttur, næringafræðing í fagteymi FSí, Dr. Sigríði Láru Guðmundsdóttur, íþróttafræðing og svefnráðgjafa, Rakel Davíðsdóttur frá Líf og Sál sem fer yfir siðareglur og Dr. Hafrúnu Kristjánsdóttur sem mun halda fyrirlestur um sjálfstraust og hugarþjálfun. 

Fyrirlestrarnir eru ætlaðir öllum þeim sem eiga sæti í úrvalshópum FSÍ, en félögin hafa einnig haft möguleika á að senda iðkendur sem þeir telja að geti átt sæti í úrvalshóp en hafa ekki átt heimangengt í úrtökur vegna meiðsla.