Þriðjudagur, 23 Janúar 2018 10:49

Mikill fjöldi sótti dómaranámskeið í hópfimleikum um helgina

Fyrsta dómaranámskeiðið hér á landi í uppfærðum reglunum í hópfimleikum fór fram í síðustu viku. Námskeiðið var samtals 34 klukkustundir og hófst miðvikudaginn 17. janúar og lauk sunnudaginn 21. janúar. 
Námskeiðið var tvískipt, annars vegar fyrir þá dómara sem voru að fá réttindi í fyrsta skipti og hins vegar fyrir þá dómara sem voru að endurnýja réttindi sín. Alls sóttu 78 manns námskeiðið, 48 nýjir dómarar og 30 sem voru að endurnýja dómararéttindi sín.

Kennsla fyrir nýja dómara fór fram í íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ og fyrir núverandi dómara í húsakynnum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Alþjóðlegu dómararnir Bergþóra Kristín Ingvadóttir, Íris Svavarsdóttir, Olga Bjarnadóttir og Yrsa Ívarsdóttir sáu um kennslu á námskeiðunum og þökkum við þeim kærlega fyrir vel unnin störf.

Við þökkum Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ og Fimleikadeild Keflavíkur einnig fyrir afnot af aðstöðu þeirra.

 

Næstkomandi helgi verður sama námskeið haldið á Egilsstöðum þar sem 15 manns eru skráðir, ýmist að endurnýja réttindi eða taka prófið í fyrsta skipti.