Miðvikudagur, 20 Desember 2017 14:44

Fimleikafólk ársins 2017

 

Valgarð Reinhardsson er fimleikakarl ársins 2017. Hann varð Bikarmeistari með Gerplu og  Íslandsmeistari í fjölþraut með þónokkrum yfirburðurðum. Hann náði besta árangri íslensku strákanna á erlendum vettvangi en hann lenti í 40. sæti á Evrópumótinu í Rúmeníu, 45. sæti á Heimsmeistaramótinu í Kanada og 8. sæti á Norður-Evrópumótinu en þar náði hann einnig að tryggja sér bronsverðlaun á svifrá og var lykilmaður í íslenska liðinu sem hefur aldrei verið jafn nálægt verðlaunum á mótinu. Valgarð hefur bætt sig mikið á árinu og er jafnt og þétt að auka erfiðleikann í sínum æfingum. Hann er metnaðarfullur og öðrum iðkendum góð fyrirmynd.

Fimleikakona ársins 2017 er Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði og lykilkona í liði Stjörnunnar, nýkrýndra Norðurlandsmeistara í hópfimleikum og bikarmeistara FSÍ.  Hún er gríðarlega samviskusöm og metnaðarfull og hefur fyrir löngu stimplað sig sem eina af bestu fimleikakonum Íslands. Hún er sterk keppnismanneskja á öllum áhöldum og stekkur til að mynda í öllum 6 umferðum liðsins á mótum vetrarins. Hún er mjög stöðug, hvetjandi og geislar af öryggi og gleði. Andrea Sif er keppandi sem er örðum iðkendum frábær fyrirmynd, utan salar sem innan. 

 

2. sæti - Eyþór Örn Baldursson

Eyþór Örn Baldursson varð bikarmeistari með Gerplu og í öðru sæti í fjölþraut á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum á eftir Valgarð. Hann hefur bætt sig jafnt og þétt eftir erfið meiðsli og tók í haust þátt í sínu fyrsta erlenda verkefni eftir tveggja ára hlé þegar hann tók þátt á heimsbikarmóti í Ungverjalandi.  Hann keppti á öllum áhöldum fyrir íslenska liðið á Norður-Evrópumóti og komst í úrslit á stökki og hafnaði þar í 3ja sæti.

2. sæti – Irina Sazonaova

Irena keppir fyrir Ármann og er ein fremsta fimleikakona landsins.  Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut og á einstökum áhöldum varð hún einnig Íslandsmeistari á stökki og á slá.
Irena náði bestum árangri íslenskra keppenda á alþjóðlegum mótum á árinu. Á Evrópumótinu í Rúmeníu í vor, var hún hársbreydd frá því að komast í 24 manna úrslit í fjölþraut og á  Heimsmeistaramótinu í Montreal hafnaði hún í 37. sæti en það er besti árangur sem íslensk fimleikakona hefur náð á HM.  Hún varð auk þess í 2. sæti í fjölþraut á Norður-Evrópumótinu og var þar lykilmanneskja í íslenska liðinu sem hafnaði í 2. sæti, en það er besti árangur liðsins frá upphafi á mótinu.

 

3. sæti – Alexander Sigurðsson

Alexander stóð sig frábærlega á árinu. Hann keppir bæði með karlaliði og blönduðu liði Gerplu og varð Íslandsmeistari með báðum liðum í vor. Hann var lykilmaður í báðum liðum á Norðurlandamótinu í Svíþjóð í haust þar sem hann framkvæmdi erfiðasta stökk liðsins á trampólíni og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að gera þrefallt heljarstökk með 2 og hálfri skrúfu. Hann er jákvæður, metnaðarfullur og góður liðsmaður.

 

3. sæti – Norma Dögg Róbertsdóttir

Norma Dögg Róbertsdóttir er ein af lykilmanneskjunum í Norðurlandameistara og bikarmeistaraliði Stjörnunnar. Norma er sterk á öllum áhöldum og á Íslandsmeistaramótinu í vor, framkvæmdi hún erfiðasta stökk sem keppt hefur verið með á dýnu í hópfimleikum kvenna í heiminum. Hún er stökkvari af Guðs náð,  sterk með gríðarlega sprengikraft. Norma er mögnuð fimleikakona sem tekið er eftir hvar sem hún tekur þátt.  

 

Einnig voru nefnd Jón Sigurður Gunnarsson, Rikharð Atli Oddsson, Einar Ingi Eyþórsson, Agnes Suto-Tuuha, Thelma Aðalsteinsdóttir, Valgerður Sigfinnsdóttir og Dominiqua Alma Belányi

 

  

Lið ársins 2017:

Meistaraflokkur kvenna hjá Stjörnunni er lið ársins. Liðið er bikarmeistari og Íslandsmeistari á gólfi og trampólíni en nafnbótina hljóta þær þó aðallega fyrir frábæra frammistöðu á Norðurlandamótinu í Svíþjóð, þar sem þær vörðu Norðurlandameistaratitilinn með glæsibrag.

 

 Afrek ársins 2107:

Kvennalandslið Íslands í áhaldafimleikum náði sögulegum árangri á Norður-Evrópumótinu í Færeyjum í haust, þegar liðið hafnaði í 2. sæti í liðakeppninni. Keppnin var gríðarlega hörð og spennandi og það var ekki fyrr en á síðasta áhaldi sem gullið rann liðinu úr greipum.

Þetta er besti árangur sem Ísland hefur náð á Norður-Evrópumóti frá upphafi.