Laugardagur, 02 Desember 2017 15:44

Kosningaþingi UEG lokið og Ísland á nú tvo fulltrúa í stjórn

Um helgina fór fram kosningaþing hjá Evrópska fimleikasambandinu (UEG). Í framboði fyrir Fimleikasamband Íslands (FSÍ) voru tveir fulltrúar, Sólveig Jónsdóttir Framkvæmdastjóri FSÍ  sem fulltrúi í stjórn UEG og Hlíf Þorgeirsdóttir sem formaður nefndar um fimleika fyrir alla. Þær hafa báðar starfað í nefndum UEG síðastliðin ár.

Fyrir þingið varð ljóst að Hlíf var sjálfkjörin þar sem mótframbjóðandi hennar frá Portúgal dróg framboð sitt til baka. Hlíf er því formaður nefndar um fimleika fyrir alla hjá UEG næstu fjögur árin ásamt því sem hún tekur sæti í stjórn UEG.

Sólveig háði mikla baráttu um sjö laus sæti í stjórn UEG þar sem þrettán aðilar voru í framboði. Í annarri umferð kosninga varð það þó ljóst að Sólveig var kjörin sem fulltrúi í stjórn.

Þetta er mikill heiður fyrir Fimleikasamband Íslands þar sem Ísland á þá tvo af átján fulltrúum í stjórn UEG næstu fjögur árin og er jafnframt eina landið sem á tvo fulltrúa þar. Ísland hefur ekki áður átt fulltrúa í stjórn UEG né heldur formann tækninefndar innan UEG.

Hlíf Þorgeirsdóttir og Sólveig Jónsdóttir

Fyrir þingið bárust íslensku sendinefndinni þau gleðitíðindi að EuroGym 2020 hafi verið úthlutað til Íslands, en hátíðin verður sú tólfta í röðinni. FSÍ hefur í samvinnu við Reykjavíkurborg unnið að umsókn þar um í töluverðan tíma og því óhætt að segja að úthlutunin er uppskera frábærrar vinnu íslenskra sjálboðaliða innan FSÍ til margra ára.

EuroGym er risavaxin fimleikahátíð fyrir 12-18 ára ungmenni, sem haldin er annað hvert ár og stendur yfir í um viku. Næsta hátíð verður í Liege í Belgíu 2018 þar sem búist er við um 5.000 fimleikaiðkendum víðsvegar frá Evrópu en Ísland hefur í gegnum tíðina sent stóra hópa á hátíðina. Hátíðin á Íslandi mun fara fram víðsvegar á götum og torgum Reykjavíkurborgar í samvinnu og samstarfi við borgina. Eurogym 2020 mun án efa setja sterkan svip á höfuðborgina 11.-19. Júlí 2020.

Það er von FSÍ að hátíðin verði til þess að auka veg fimleika fyrir alla á Íslandi þar sem hátíðin er hugsuð fyrir alla, ekki einungis þá sem skara fram úr í keppni. Fimleikar eru nefnilega fyrir alla.