Þriðjudagur, 28 Nóvember 2017 08:51

Síðustu verkefni íslensku landsliðanna á árinu kláruðust um helgina

Ísland átti keppendur á tveimur stórum áhaldafimleikamótum um helgina.

Annarsvegar keppti Thelma Aðalsteinsdóttir á heimsbikarmótinu í Cottbus í Þýskalandi en þetta var hennar fyrsta heimsbikarmót og frábær reynsla fyrir þessa ungu og efnilegu fimleikakonu.

Hinsvegar kepptu þær Sonja Margrét Ólafsdóttir og Vigdís Pálmadóttir á alþjóðlegu unglingamóti í Belgíu, Top Gym. Einungis tveir keppendur frá hverri þjóð mega taka þátt og keppa þeir í fjölþraut fyrri daginn en síðari daginn er liðakeppni. Þá eru búin til fjögurra manna lið þar sem 2 eða fleiri þjóðir mynda hvert lið og 2 keppendur úr hverju liði keppa á hverju áhaldi. Íslensku stelpurnar stóðu sig mjög vel á mótinu. Vigdís hafnaði í 30. sæti í fjölþraut og Sonja Margrét sem glímdi við bakmeiðsli, hafnaði í 40. sæti. Í liðakeppninni mynduðu þær lið með Belgíu og Argentínu og höfnuðu þær í 3ja sæti í liðakeppninni. Vigdís keppti þar á slá og stökki og Sonja á tvíslá og gólfi og töldu einkunnir íslensku stelpnanna á öllum áhöldum.