Mánudagur, 13 Nóvember 2017 10:04

Tvöfaldir Norðurlandameistarar úr Stjörnunni

Kvennalið Stjörnunnar varð um helgina Norðurlandameistari í hópfimleikum og varði um leið titilinn frá árinu 2015 en mótið er haldið annaðhvert ár. Í ár fór mótið fram í Lund í Svíþjóð og tóku alls 10 lið þátt í kvennakeppninni. Mótið var sýnt í beinni útsendingu á RÚV 2 en hægt er að sjá útsendinguna í heild sinni hér fyrir neðan. 

Stjarnan sigraði mótið með 58.216 stig en lið GT Vikingarna frá Svíþjóð varð í 2. sæti með 57.333 stig. Sæby-Viborg frá Danmörku varð í þriðja sæti með 55.050 stig. Stjarn­an fékk frábæra einkunn fyrir gólfæfingarnar, 23.066 stig en einkunnir yfir 23 eru sjaldséðar á gólfi. Á dýnu fengu þær 17.350 stig og 17.800 stig fyr­ir æf­ing­ar á trampólíni. Þrátt fyrir örlitla erfiðleika í lokaumferðinni á dýnu fékk hlaut lið Stjörnunnar hæstu einkunn í dýnustökki og í gólfæfingum, en fyrir framkvæmdareinkunn í gólfæfingum hlaut liðið verðlaun fyrir hæstu framkvæmdareinkunn mótsins. Lið Gerplu varð í 6. sæti og fékk alls 51.916 stig.

 

Í flokki blandaðra liða sigruðu Svíar með lið frá GK Motus-Salto. Liðið hlaut alls 57.000 stig. Ísland átti einnig tvö lið í blönduðum flokki, þar sem lið Gerplu endaði í 4. sæti með 54.516 stig og lið Stjörnunnar í 8. sæti með 50.550 stig.

Í karlakeppninni héldu Danir sigurgöngu sinni áfram, en Gjellerup Sdr. sigraði með 62.183 stig. Hægt er að segja að dýnustökkin hafi tryggt þeim sigurinn en þar var liðið með gríðarlega háan erfiðleika og framkvæmdi æfingar sýnar einstaklega vel. 

Hægt er að nálgast nánari úrslit hér. 

Hér má sjá útsendingu frá hverjum hluta:

Blönduð lið

Kvennaflokkur

Karlaflokkur