Laugardagur, 11 Nóvember 2017 08:06

Gríðarlega spennandi keppni framundan í beinni á RÚV2!

Norðurlandamótið í hópfimleikum fer fram í Lund í Svíþjóð í dag. Mótið er sýnt í beinni á RÚV 2 og hefst fyrsti hluti kl. 09:15 með keppni blandaðra liða.

Ísland er með 5 lið í mótinu, bæði Gerpla og Stjarnan eru með kvennalið og lið í blönduðum flokki í keppninni og Gerpla er auk þess með karlalið.

Í flokki blandaðra liða lítur lið Gerplu gríðarlega vel út en einnig lið Stjörnunnar og bæði lið ættu að berjast um verðlaunasæti ef þau eiga góðan dag.

Í kvennaflokki stefna Norðurlandameistarar Stjörnunnar á að verja tiltilinn og þóttu fyrir mót líklegar til þess. Ælupest í herbúðum liðsins setti þó strik í reikninginn, sérstaklega á æfingunni í gær. Stelpurnar unnu þó vel úr aðstæðunum og eru vel stemmdar fyrir úrslitin í dag.

Í karlakeppninni keyrir Gerpla að hluta til á strákum sem keppa einnig í flokki blandaðra liða. Það hefur eðli málsins áhrif á undirbúning liðsins og á Gerpla svolítið undir högg að sækja í karlakeppninni. Gerplustrákarnir líta þó vel út í stökkunum og verður gaman að sjá hvernig þeir koma út á stökkáhöldunum. Dansæfingar hafa þurft að mæta afgangi hjá karlaliðinu en áherslan hefur verið lögð á blandaða liðið, því vantar svolítið upp á samhæfinguna í dansinum til að þeir eigi erindi í verðlaunabaráttu. 

Norðurlandamótið er félagsliðakeppni og hefur hvert landa rétt á að senda 2 lið til keppni í hverjum flokk. 

Hér má sjá dagskránna á RÚV2.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Áfram Ísland
#fyririsland
#fimleikar