Mánudagur, 09 Október 2017 14:46

Bandaríkin héldu titlinum í fjölþraut þrátt fyrir fjarveru Simone Biles

Bandaríkin hafa drottnað yfir fjölþrautinni í áhaldafimleikum kvenna síðasta áratuginn. Hin 16 ára Morgan Hurd bætti nafninu sínu í hóp bandarísku stúlknana á föstudag þegar hún sigraði fjölþrautina með 55.232 stig. Hin kanadíska Elsabeth Black var hársbreidd frá því að lenda fyrsta sætinu og leiddi keppnina fyrir síðasta áhaldið. Hingað til hefur enginn frá Kanada, hvorki kona né karl unnið fjölþraut á HM. Black tók annað sætið með 55.132 stig. Í þriðja sæti var svo Elena Eremina frá Rússlandi og fékk hún alls 54.799 stig.

Hér má sjá viðtal við Hurd að keppni lokinni. 

Bandaríkin skráðu eins og áður sagði, nýtt nafn í sögubækurnar í Montréal, en frá árinu 2007 hafa nöfn á borð við Shawn Johnsson (2007), Anastasia Liukin (Ólympíuleikar 2008), Bridget Sloan (2009), Jordyn Wieber (2011), Gabrielle Douglas (Ólympíuleikar 2012) og Simone Biles (2013, 2014, 2015 og Ólympíuleikar 2016) séð um að vinna fjölþrautina fyrir Bandaríkin.

Keppni á einstökum áhöldum fór svo fram á laugardag og sunnudag þar sem átta bestu á hverju áhaldi úr undankeppninni komust í úrslit.

Hér má sjá úrslit úr kvennakeppninni.

Hér má sjá úrslit úr karlakeppninni. 

Kína varð sigurstranglegasta þjóðin á mótinu, alls unnu Kínverjar 3 gull, 1 brons og 2 silfur. Þar á eftir var Japan í öðru sæti, Rússland í þriðja og Bandaríkin í því fjórða.