Þriðjudagur, 03 Október 2017 09:36

Nonni og Valli hafa lokið keppni!

Jón Sigurður Gunnarsson og Valgarð Reinhardsson luku keppni í gær á Heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum sem nú fer fram í Montréal. Strákarnir byrjuðu vel á stökki og virtust vel stemmdir. Jón gerði svo góða seríu á tvíslá en Valgarð gerði klaufaleg mistök í upphafi æfingarinnar sem höfðu mikil áhrif á framkvæmdareinkunnina.

Á svifrá var Jón enn í stuði og skilaði góðum æfingum og Valgarð náði sér vel á strik eftir mistökin á tvíslánni.

Á gólfi skiluðu báðir fínum æfingum áður en kom að bogahesti. Þar átti Jón ekki góðan dag og var með tvö föll en Valgarð, sem gerir einfalda æfingu vegna úlnliðsmeiðsla, skilaði sínu án áfalla.

Á síðasta áhaldinu, hringjum, byrjaði Jón vel en undir lokin voru hringirnir farnir að sveiflast of mikið til að hann næði að halda síðasta mómentinu. Valgarð átti hinsvegar góðan dag í hringjunum og setti punktinn yfir i-ið með því að negla afstökkið.

Jón lauk keppni með 68.199 stig og Valgarð með 73.964. Hvaða sæti það skilar skýrist í dag þegar forkeppni lýkur.