Fimmtudagur, 10 Ágúst 2017 13:47

Þakkar fimleikunum góðan árangur í crossfit

Heimsleikarnir í crossfit fóru fram um í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum um síðastliðna helgi. Meðal þátttakenda voru fyrrum fimleikastúlkurnar Anníe Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davísdóttir og Harpa Dögg Steindórsdóttir. Anníe Mist og Katrín Tanja tóku þátt í einstaklingskeppninni þar sem Anníe endaði í þriðja sæti og Katrín í því fimmta. 

Harpa Dögg fyrrum Gerplukona og landsliðskona í fimleikum tók þátt í liðakeppninni, en liðið hennar samanstóð af þremur konum og þremur körlum. ,,Það má segja að maður sé ennþá bara að átta sig á hlutunum. Ég trúi því varla að þetta sé búið, öll vinnan sem fór í mótið og undibúninginn og svo er þetta bara allt í einu búið. Get samt ekki sagt annað en að ég naut hverrar mínútu bæði í undibúningnum og í keppninni” sagði Harpa að móti loknu. ,,Mótið fór ekki alveg eins og við gerðum ráð fyrir þar sem við þurftum að draga okkur úr keppni vegna meiðsla eftir fyrstu tvo dagana, en mótið er alls fjórir dagar. Það að komast inn á Heimsleikana er í raun stór sigur í sjálfu sér, þangað komast aðeins 40 lið í heiminum og við vorum eitt af þeim. Við stóðum okkur allavega vel í því sem við gerðum og getum ekki annað en verið stolt af okkar árangri”. 

Sveit Hörpu Daggar Steindórsdóttur á Heimsleikunum. Frá vinstri: Sólveig Sigurðardóttir, Stefán Ingi Jóhannsson, Birna Blöndal Sveinsdóttir, Þröstur Ólason, Harpa Dögg Steindórsdóttir, Hilmar Arnarson.

En afhverju crossfit? ,,Eftir að ég hætti í fimleikum átti ég erfitt með að finna mig í ræktinni og vantaði nýja íþrótt. Ég byrjaði í crossfit af því mér fannst það hljóma spennandi en ætlaði mér þó ekki að keppa í því. Nú rúmum fjórum árum síðar, hef ég farið þrisvar sinnum á Evrópuleika og tvisvar á Heimsleikana”.

Harpa segist geta þakkað fimleikagrunninum góðan árangur í crossfit. ,,Ég vil meina að fimleikar séu góður grunnur fyrir allar íþróttir. Ég veit ekki hversu oft ég heyri crossfittara segja að þeir vildu óska þess að hafa verið í fimleikum þegar þeir voru yngri. Liðleiki og góð hreyfigeta er eitthvað sem ég á fimleikunum að þakka”.

Ísland fær sérstaka athygli á mótum sem þessum. ,,Það vita allir hverjar íslensku stelpurnar eru, við fáum oft spurningar um hvað sé í vatninu á Íslandi eða hvað það er sem geri Íslendinga svona sterka”.

Harpa segir fimleika og crossfit vera á marga vegu líkar íþróttir ,,Ef ég ætti að lýsa þessum greinum í einu orði held ég að fjölbreytileiki yrði fyrir valinu. Báðar íþróttirnar eru svo fjölbreytilegar sem mér finnst einmitt svo skemmtilegt við þær. Endalausir möguleikar til að gera nýjar æfingar og bæta sig”.

Við hlökkum til að fylgjast með árangri Hörpu í framtíðinni, ásamt öllu því fimleikafólki sem blómstrar í crossfit greininni.  

Áfram Ísland!