Þriðjudagur, 04 Júlí 2017 18:15

6.700 manna fimleikasýning sett saman af Evrópumeistara!

Landstevne DGI er gríðarlega stór íþróttahátíð í Danmörku í anda Landsmóts UMFÍ. Hátíðin hefur verið haldin á fjögurra ára fresti, frá þar síðustu aldarmótum og hefur því gríðarlega langa sögu. Mótið er fjölbreytt og tekur sífelldum breytingum og fullt af nýjum greinum hafa fengið að stíga þar sín fyrstu skref. Á hátíðinni er hægt að keppa í rúmlega 25 mismunandi greinum og prófa fjölda annarra. Þá er einnig fjöldi sýninga og ýmis önnur afþreying í boði. Alls voru 25.000 þátttakendur á hátíðinni en hún fór fram í Álaborg um helgina. Meðal þeirra sem sýndu á hátíðinni var danska heimsliðið. Liðið er samansett af hæfasta fimleikafólki Danmerkur, en saman ferðast þau um allan heim, ár og ár í senn, þar sem þau sýna og halda vinnubúðir fyrir áhugasamt fimleikafólk. Liðið endaði ferð sína um heiminn á Landstevne um helgina og hér má sjá myndbönd af glæsilegri sýningu þeirra.

Augnakonfekt hátíðarinnar var þó án alls efa 6.700 manna sýning frá nemendum úr heimavistarskólum í Danmörku. Íslandsvinurinn og landsliðsþjálfarinn Johannes Juulsgaard er einn af þjálfurunum atriðisins, en hann hefur stundað og/eða þjálfað fimleika alla sína ævi. Hann vann á sínum fimleikaferli ótal titla bæði sem þjálfari og keppandi og þjálfaði til að mynda karlalið Danmerkur sem varð Evrópumeistari á Íslandi árið 2014. Johannes hefur verið deildarstjóri í Sorø gymnastik efterskole síðastliðin 7 ár og tók meðal annars þátt í atriðinu sjálfur.

 

Johannes Juulsgaard, deildarstjóri Sorø gymnastik efterskole

Að atriði loknu sagði Jóhannes ,,Hátíðin einkennist af hamingjusömu fólki á öllum aldri sem elskar að stunda íþrótt sína. Ég elska að finna fyrir krafti íþróttanna þegar þær sameinast í hátíð sem þessarri”. Hann segir fólk einnig njóta þess að breyta til og stunda íþrótt sína úti við.”

Hér má sjá samantekt af atriðinu.

Johannes segir Landstevne vera frábæran íþróttaviðburð og ráðleggur Íslendingum að taka þátt árið 2021 og leggur til að við höldum okkar eigin. Landsmót UMFÍ er sá viðburður hér á landi sem kemst hvað næst þessum viðburði Dananna og hefur FSÍ boðið Johannes og hans skóla að taka þátt að ári, en þá fer 28. landsmót UMFÍ fram á Sauðárkróki.

Sýningin hafði sérstaka þýðingu fyrir nemendur að sögn Johannes, en hún markaði endi á skólagöngu þeirra í heimavistaskólunum. Orð yfir efterskole er ekki til á Íslensku en hugmyndafræðin er sú að nemendum standi til boða að fara í heimavistaskóla þegar þau eru á aldrinum 16-17 ára og geti þá valið milli skóla sem staðsettir eru víðsvegar um Danmörku. Skólarnir eru fjölbreyttir og með mismunandi áherslum, allt frá íþróttum yfir í tónlist.

Hér má sjá atriðið í heild sinni.

Sýningin sló í gegn á hátíðinni og að mati Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdarstjóra UMFÍ, var sýningin gríðarmikið sjónarspil.  “Sérstaða hátíðarinnar er fjölbreytnin og áhersla á þátttöku á eigin forsendum”, sagði Auður að hátíðinni lokinni. Um 50 manna hópur Íslendinga var á mótinu og prófuðu þau fjölda greina ásamt því að taka þátt í vinnubúðum.

 

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdarstjóri UMFÍ