Þriðjudagur, 11 Apríl 2017 12:04

Fimleikaveisla í höllinni 2017 - Takk fyrir okkur

Nú þegar Fimleikaveislan 2017 er yfirstaðin og allt að komast aftur í fastar skoður hér á skrifstofunni þá er þakklæti okkur eftst í huga. Við erum einstaklega stolt af þessari flottu hreyfingu. En án ykkar allra hefði þessi helgi aldrei orðið að veruleika. Við viljum sérstaklega þakka félögunum Björk og Stjörnunni fyrir að lána okkur áhöld. Gerplu fyrir frábært samstarf með áhöld og mannafla. Einnig þökkum við sjálfboðaliðum, keppendum, þjálfurum, dómurum og starfsmönnum fyrir frábæra helgi sem að seint á eftir að gleymast. Þegar við lögðum af stað í þetta verkefni þá var alltaf ætlunin að bjóða okkar keppendum og áhorfendum upp á umgjörð sem að væri þeim framandi við keppni hér heima. Við vildum að áhorfendur heima í stofu sæju hversu frábærir Íslenskir fimleikar eru. Okkur finnst við hafa náð því með frábærum viðburði.

Fimleikaveislan 2017 hófst fimmtudaginn 6. apríl þar sem að keppt var í hópfimleikum. Afhentir voru Íslandsmeistaratitlar í fjölþraut og á einstökum áhöldum í flokkum kvenna, karla og mix liða. Einnig var verðlaunað fyrir sigur í GK- deildarmeistarakeppninni.

 

Í kvennaflokki sigraði lið Gerplu í kvennaflokki nokkuð óvænt. Gerpla sigraði einnig á dýnu. Lið Stjörnunnar sigraði í dansi og á trampólíni og stóð einnig uppi sem sigurvegari í GK – deildarmeistarakeppninni í kvenna og mix flokkum.

Í karlaflokki var lið Gerplu með yfirburði og sigraði í fjölþraut og á öllum áhöldum.

Í flokki mix liða sigraði lið Gerplu í fjölþraut og á trampólíni. Lið Stjörnunnar sigraði í dansi og á dýnu. Lið Gerplu stóð uppi sem sigurvegari í GK – deildarmeistarakeppninni.

 

Laugardaginn 8. apríl var keppt í fjölþraut í áhaldafimleikum. Keppt var í fjórum flokkum. Kvenna, karla og unglingaflokkum stúlkna og drengja.

Íslandsmeistari kvenna varð Irina Sazonova, Ármanni. Íslandsmeistari karla varð Valgarð Reinhardsson, Gerplu. Í unglingaflokki stúlkna sigraði Sonja Margrét Ólafsdóttir, Gerplu og í unglingaflokki drengja sigraði Martin Bjarni Guðmundsson, Gerplu.

 

 

Á sunnudeginum 9. apríl var keppt í keppni á einstökum áhöldum.

Í kvennaflokki sigraði Dominiqua Alma Beláni, Ármanni á tvíslá og gólfi og Irina Sazononva, Ármanni á stökki og slá.

Í karla flokki þá sigraði Eyþór Örn Baldursson, Gerplu á gólfi og stökki, Arnþór Daði Jónasson, Gerplu sigraði á bogahesti, Jón Sigurður Gunnarsson, Ármanni á hringjum, Stefán Ingvarsson, Björk á tvíslá og Valgarð Reinhardsson á svifrá.

Í unglingaflokki drengja sigraði Martin Bjarn Guðmundsson, Gerplu á gólfi, stökki, tvíslá og svifrá. Á hringjum sigraði Breki Snorrason, Björk og á bogahesti Dagur Kári Ólafsson, Gerplu.

Í unglingaflokki stúlkna sigraði Thelma Rún Guðjónsdóttir, Fylki á stökki. Vigdís Pálmadóttir, Björk á tvíslá. Sóley Guðmundsdóttir, Gróttu á slá og Tinna Sif Teitsdóttir, Gerplu á gólfi.

 

Nánari úrslit fyrir mótin má sjá hér í viðhengjum.

 

Við óskum Íslandsmeisturum og öðrum til hamingju með mótið og við getum ekki beðið eftir Fimleikaveilsu í Höllinni 2018.

 

Takk fyrir okkur.

Starfsfólk og stjórn FSÍ